Urðarboli er vættur sem er maður að ofan en naut eða selur að neðan og býr í Reynisfjalli, ef hann lifir enn. Engum gerði hann illt en oft heyrðist hann hljóða ákaflega, sérstaklega ef von var á austanveðri.
Við sjóinn austan undir Reynisfjalli er krókur nokkur, sem kallaður er Bolabás, og er um hann saga sú, er nú skal greina. Það var trú manna, að í Bolabás væri vættur einn, sem kallaður var Urðarboli, og eru engar sögur um það, hvers kyns hann væri, en sagt er, að hann hefði mannsmynd niður að mitti, en ekki man ég, hvort neðri hlutinn átti að hafa líkzt sel eða nauti, en það var annað hvort. Hann hafði aðsetur í helli, sem var niður við sjóinn og hljóðaði ákaflega undir slæm austanveður, ekki síður sumar en vetur, en sú átt stendur beint upp á Bolabás. Engum átti hann að hafa gert illt, og líka var sjaldgæft að sjá hann. Þó er sagt, að eitthvert sinn hafi maður verið á gangi uppi á Reynisfjalli og heyrði Urðarbola hljóða ákaflega. Maðurinn var hvatvís og ófyrirleitinn, fór því með mesta flýti ofan og suður með fjalli til að sjá skepnu þessa. Honum tókst það líka, og átti hann að segja svo frá, að kvikindi þetta hafi verið mjög svo aumlegt og ljótt og hafi sagt við sig, að honum mundi verða það lítið til gæfu að kappkosta að skoða sig, og síðan fór það inn í helli sinn, en sagt er, að maðurinn hafi orðið lánlítill eftir þetta. Fám árum áður en ég kom að Vík (1827), vöktu tveir kvenmenn yfir túni um vortíma og ung stúlka með þeim sér til gamans. Annar kvenmaðurinn var frekur og ósvífinn og alþekkt að því alla sína tíð. Nú um nóttina tók Urðarboli að hljóða, en fyrrnefndur kvenmaður tók undir eins að herma eftir honum. Við það reiddist Urðarboli svo, að þeim, sem vöktu, þótti sem hljóðið væri einlægt að færast nær og verða greinilegra, og seinast heyrðist þeim sem hljóðið væri komið heim undir bæ. Þá beiddu hinar stúlkurnar kvenmanninn að hætta að herma eftir hljóðinu, og lét hún að orðum þeirra, enda héldu þær, að henni hafi ekki verið farið að finnast til. En jafnskjótt og hún hætti að herma eftir, þá hætti líka Urðarboli undir eins að hljóða.
Ekki get ég borið á móti því, að ég heyrði til Urðarbola eftir að ég kom hingað að Vík. En tveim árum síðar (1829) hljóp fjarskalega mikið hlaup úr fjallinu rétt fyrir innan Bolabás, og eftir það veit ég ekki til, að heyrzt hafi til Urðarbola, enda er nú sjórinn búinn að brjóta upp hellinn hans.
Því verður ekki neitað, að vættur þessi var til, en líkast virðist mér, að það hafi helzt verið af sjóskrímslakyni, með því ég veit eina sanna sögn um það, að það hafi verið til hér í sjónum. Þegar Ragnar Úlstrúp þjónaði Skaftafellssýslum, var bróðir hans, Valdemar Úlstrúp, hér með honum til skemmtunar. Valdemar var skotmaður frægur og listamaður með marga hluti. Þeir voru til húsa hér í Syðri-Vík (hjá Sveini lækni Pálssyni). Eitt sinn skaup Valdemar sel. Maðurinn stóð í fjörunni, en selurinn var á sundi út í sjó. Selurinn var dauðskotinn, og sendi Valdemar hundinn þeirra bræðra eftir honum, en hann réð ekki við selinn. Fór þá Valdemar sjálfur og ætlaði að sækja selinn, en sneri aftur allt í einu, þegar hann átti skammt þangað, sem selurinn var, og kom í land aftur. Var hann þá spurður, hvað til hafi komið, að hann fékkst ekki við selinn. En hann sagði, að móti sér hefði komið sjóskrímsli, bæði ljótt og mikið að vexti og hann skyldi aldrei, að nauðsynjalausu, fara til sunds í þennan sjó. Litla stúlkan, sem vakti með kvenmönnunum, sagði mér frá hljóðum Urðarbola og æsing þeirra við það, að eftir þeim var hermt. En frá sundferð og orðum Valdemars sagði mér maður, sem sjálfur var í fjörunni hjá þeim bræðrum.
(Jón Þorkelsson: Þjóðsögur og munnmæli, bls. 69-70. Eftir handriti Runólfs Jónssonar í Vík 1863 á Landsbókasafni 538, 4to.)