Einu sinni bjó bóndi á Eyvindarmúla í Fljótshlíð. Bærinn var soleiðis lagaður að það var skáli austrúr dyrunum og voru þar dyr út og tvennar dyr fram úr bæjardyrunum og var fjósið skammt fyrir norðan þar.
Eitt kvöld þegar átti að fara að fara í fjósið eftir vöku var öskursbylur. Þegar fólkið á að fara í fjósið og kemur fram í dyrnar er búið að brjóta upp bæinn og stendur þar inn í dyrunum ógurlega stór karl og so er hann stór að mittbakið á hönum tók upp undir bæjardyraloftið. Þá verður það so hrætt að það hleypur inn og segir bónda frá því. Bóndi segir að það skuli ekkert skipta sér um hann nema fara um skáladyrnar. Fólkið gerir það með hálfum huga, en sumu af kvenfólkinu skipar hann að fara að elda graut. Þegar búið er að elda skipar hann að fylla mjólkurtrog af grautnum og láta sleif í og seta á kistuna í bæjardyrunum og er það gert, en þegar fjósakonurnar koma lætur hann fylla ask af mjólkinni og seta hjá troginu. Bóndinn, og konan með hönum, [fer] og segir:
„Éttu maður hvur sem þú ert.“
Gengu þau síðan til baðstofu og segir bóndi að fólkið skuli fara að hátta, því muni vera það óhætt, karlinn leggi ekkert til þess, og gerir fólkið það. En um morguninn þegar bóndi kemur á fætur er þessi mikli maður á burt og búið að borða mjólkina og grautinn, en mjög voru fallegar silfurnálar á troginu, og bar so ekki framar á þessum stóra manni. — Endar so þessi saga
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 281).