Reimleikar í Árbæjarkirkju voru kenndir stúlku sem drekkti sér í Ytri-Rangá
1890 voru tveir vinnumenn á Árbæ á Rangárvöllum úti í kirkju að kvöldi dags að spila á orgelið og syngja. Fyrr um daginn hafði verið jarðaður á staðnum ungur bóndasonur frá Rauðalæk. Kom þá sá dauði inn í kirkjuna í líkklæðunum og gekk í áttina að orgelleikaranum. Varð honum mikið um sýn þessa en ekki er þess getið að vofa þessi hafi sést nema þetta eina kvöld.
Einar Guðmundsson smiður á Brúnalæk við Sumarliðabæ, öðru nafni Einar í Kofanum, varð einu sinni var við reimleika í Árbæjarkirkju þegar hann gisti þar nokkrar nætur, litlu eftir 1890. Einar þessi hafði þá sérvisku að vilja helst ekki sofa í baðstofu þegar hann dvaldi á bæjum við smíðaverk sín og að þessu sinni kaus hann sér kirkjuna sem náttstað, svaf þar sunnan megin í kór. Fyrstu nóttina varð hann var við torkennilegan umgang, þá næstu einnig og þá var strokið létt yfir sængurklæði hans en hann sá samt engan. Þriðju nóttina var hurðum “…hrundið upp harkalega og hvatlega gengið innar að beði hans. Því næst var þreifað á fótum hans með rakri og helkaldri hendi. Að því búnu var hlúð að þeim og fötum þrýst tveim höndum þéttfast að hliðum hans báðum megin, frá fótum uppundir hendur. Er þangað var komið þótti honum nóg um. Hann reis upp og bjóst til varnar. Þá snéri hinn óséði gestur undan, snaraðist utar eftir kirkju og skellti hurðum hart á eftir sér.” Þessi aðsókn endurtók sig þessa nótt alla í hvert sinn sem Einar var að festa svefn og næstu nótt lét hann búa um sig inni í bæ.
Reimleikar þessir voru taldir tengjast stúlkunni Þórunni frá Snjallsteinshöfðahjáleigu sem drekkti sér í Ytri – Rangá síðla hausts 1890.
(GJ V, 149, HH7)