Bótólfur með brúði sína

Bótólfur og brúður hans laumuðust burtu áður en messan hófst
Ekki er árfært, hvenær þetta gerðist, en það er langt síðan. Í gamla daga var ungur, upprennandi maður að nafni Bótólfur, heimilsfastur á Rauðhálsi í Mýrdal. Kirkjusókn þaðan var til Dyrhólakirkju og lá leiðin fram eftir Geitafjalli að austan. Á páskadaginn fór Bótólfur til kirkju eins og allir, sem heimangengt áttu. Í einum Dyrhólabænum var stúlkan hans og voru þau nýtrúlofuð. Fyrir messu hittust þau að máli og komu sér saman um að bíða ekki eftir messunni en njóta góða veðursins úti. Strax í messubyrjun labba þau frá kirkjunni áleiðis upp að Rauðhálsi. Segir ekki af ferð þeirra, fyrr en þau taka sér hvíld í hellisskúta einum innanvert í Geitafjalli. En er þau hafa hvílt sig og blásið göngumæðinni, heyrist þeim kveðið inni í berginu fast hjá þeim. Verður þeim hverft við og skyggnast eftir, hver kveði en engan sjá þau. Þau námi vísuna og er hún svona:

Bótólfur með brúði sín, brúði sín,

baukar hann inn með fjallinu, fjallinu, fjallinu.

Hann mun hreppa heljarpín, heljarpín,

því hann fór á undan spjallinu, spjallinu, spjallinu.

Þau fóru auðvitað á undan guðspjallinu. Þetta fannst þeim undarlegt. En svo bar við að um sumarmálin drukknaði Bótólfur í Dyrhólahöfn.

Sögn Önnu Guðmundsdóttur, gamallar konu á Hvoli, 1920.

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson frá Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981, bls. 92)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.