Litla stúlkan í ljósinu

Undarleg vera birtist utan við gluggann

Veturinn 1909 var ég lánuð frá húsbændum mínum á Hvoli í Mýrdal að Álftagróf í sömu sveit. Ég átti að vera fyrir framan hjá Lárusi bónda þar, Finnssyni, meðan kona hans, Arnlaug, var sér til lækninga í Reykjavík. Kvöld eitt sátum við Lárus í baðstofunni, og börnin voru að komast í rúmið. Birti þá mjög einkennilega á gluggann, svo okkur varð litið út. Þá birtist okkur undurfögur sýn. Fyrir utan gluggann var vofa svo björt að lýsti allavega út frá henni. Hún var svo snjóhvít og í síðum slopp. Við vorum hálfgert utan við okkur að horfa á þessa fögru mynd, sem var ekki hærri en þriggja til fjögra ára barn. Myndin dofnaði og hvarf eftir sem næst 3-4 mínútur.

Lárus óttaðist um að þetta væri feigðarsveimur Arnlaugar, sem lá á spítala syðra. En ekki var það, hún kom heim og lifði lengi eftir það, en svona fjórum til fimm vikum síðar dó yngsta dóttir þeirra hjónanna. Hún varð bráðkvödd, indælt barn og hét Arnlaug Lilja.

Frásögn Guðrúnar Ólafar Einarsdóttur, vinnukonu á Hvoli árið 1909

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson frá Skógum bj til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. S. 103)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.