Í túninu á Klausturhólum, prestssetri í Grímsnessveit í Árnessýlu, er hóll einn eigi hár, en mikill um sig. Hóll þessi heitir Goðhóll (Goðahóll) og er sagt að í heiðni hafi þar staðið hof á hólnum. Kunnugur maður hefur sagt að tóft hafi sézt á hólnum svo sem 30 fet á lengd, en 10 á breidd. Nú er búið að slétta hólinn og sést eigi til tóftarinnar. Vestan undir hólnum er leiði eitt; það snýr norður og suður; það er nokkuð hærra og lengra en leiði eru vanalega. Það er sagt að sé leiði Gríms þess er í landnámatíð féll undir Hallkelshólum sem nú heita Seyðishólar.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 2, bls. 84).
.