Hörgslandsmóri kemur að Kálfafellskoti

Hörgslandsmóri þótti gera víða vart við sig á bæjum á undan fólki frá Hörgslandi. Hér segir Guðrún Filippusdóttir frá tveimur komum móra að Kálfafellskoti undir lok 19. aldar.

Þegar ég var á sjöunda ári að ég held, var ég send heim eftir drykk handa fólkinu, það var að heyja úti á engjum rétt utan við túnið. Þegar ég var að fara fram göngin aftur, en þetta voru stutt göng og gluggi á þeim og glaðasólskin úti, þá sé ég hund í göngunum. Hann var flekkóttur, hvítur og mórrauður, ljómandi fallegur hundur. Það passaði fyrir mig að halda höndinni ofan á hrygginum á honum, þetta var nokkuð stór hundur. Ég var nokkra stund að strjúka honum og kjassa, þar til allt í einu að ég verð svo hrædd, ég ætlaði alveg hreint að kikna niður. Og ég tek á sprett til fólksins, og líklega ekki dropi eftir í könnunni þegar þangað kom. ,,Það kemur einhver frá Hörgslandi í dag eða morgunn“ sagði mamma. Því það átti að vera einhver fylgja, og hún var hundur, þarna sagði mamma að ég hefði klappað Hörgslandsmóra.

Svo var það einhverntíma, að mamma var heima og var að baka með kaffi. Það var um hásumar. Þá heyrir hún það að það er eins og það sé riðið á hesti yfir kálgarðinn. Það var mikið rófukál í garðinum og hún heyrði þytinn í kálinu. Svo verður henni litið út og sér þá að kálið hefur breiðst út eins og það hefði verið slegið út með priki sitt hvoru megin þar sem þessi skepna fór yfir. En hún sá aldrei neina skepnu, En svo náttúrulega var eins og fyrri daginn að það kom einhver frá Hörgslandi daginn eftir.

(Eftir sögn Guðrúnar Filippusdóttur. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í febrúar 1972 (SÁM 91/2446): https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1014145

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.