Sóttur álfakaleikur

Sumt fólk hafði trú á töframætti hluta sem sagt var að kæmu frá huldufólki. Kaleikur sem var í Breiðabólstaðarkirkju á Rangárvöllum var einn þessara hluta. Hér segir Guðrún Filippusdóttir frá því er amma hennar, Þórunn Sigurðardóttir, leggur land undir fót og sækir kaleikinn góða fyrir tengdamóður sína sem læknaðist við það af geðveilu sinni. 

Amma var gift austur í Skaftártungu. Hennar maður hét Gísli Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu. Móðir hans hét Ragnhildur og hún var veil á geðsmunum, og átti þá heima í Mörk á Síðu. Og nú var hún alveg ómöguleg, fannst að hún yrði blind, alltaf næsta morgunn þegar hún vaknar. Hún segir það, að henni batni ekki þetta nema hún fái að bergja á kaleik, sem væri í kirkju á Breiðabólsstað á Rangárvöllum. Þessi kaleikur á að vera gefinn af álfkonu. Amma kom þarna til hennar og hún er að tala um þetta við hana. ,,Jæja, ef að þú vilt, skal ég fara og reyna að fá kaleikinn,” segir amma. ,,Ég veit að það þýðir engum að fara og biðja um hann nema mér, því við erum svo góðar vinkonur, ég og kona prestsins þarna.” Svo að hún leggur af stað og fer þarna alla leið suður á Rangárvelli og fær kaleikinn, og kemur með hann. Og Ragnhildur var þjónustuð, eins og kallað var í gamla daga, með honum. Og það brá svoleiðis við, að gömlu konunni batnaði alveg og var ekkert rugluð eftir það.

(Eftir sögn Guðrúnar Filippusdóttur. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í september 1970 (SÁM 90/2325): https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012658

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.