Sporin í snjónum

Togarinn strandaði og mennirnir fengu óvænta leiðsögn til bæja

Árið 1919, árið eftir að Katla gaus, flutti Hallgrímur bóndi Bjarnason, ásamt konu sinni, Áslaugu Skæringsdóttur, og stjúpsyni sínum Kjartani L. Markússyni og öðru heimilisfólki alfarinn burt úr Hjörleifshöfða. Höfðu þá forfeður Kjartans búið í Höfðanum frá 1831, er afi hans og amma, Loftur Guðmundsson og Þórdís Loftsdóttir, fluttu þangað, frá Holti í Mýrdal.

Eftir þetta bjuggu í Hjörleifshöfða þrír leiguliðar, en enginn þeirra nema fá ár. Eftir það fór jörðin í eyði og hefur verið það síðan. Næstu árin eftir að byggð lagðist niður í Höfðanum stóðu húsin óhreifð þar á meðal tveggja hæða timburhús.

Ýmsar sögur hafa verið sagðar manna á milli um að vart hafi orðið nokkurra reimleika í Hjörleifshöfða eftir að fjölskylda Hallgríms flutti þaðan. Hvað sem sannleiksgildi þeirra sagna líður, er það ekkert nýmæli að einhver slæðingur sé á þessum afskekkta bæ, því eftir að Hjörleifur Hróðmarsson landnámsmaður var myrtur þar, þorði enginn að nema þar land, ,,fyrir landvættum”, segir í Landnámu.

Víkur nú sögunni til þess er síðasti leiguliðinn fór í burtu og Höfðinn var kominn í eyði. Þá gerðist það um vetur í vonzku veðri að  brezkur togari strandaði á Mýrdalssandi. Svo lánlega tókst til að skipshöfnin bjargaðist í land, slysalaust, dimmt var af nótt og svartabylur. Bretarnir höfðu enga hugmynd um, hvar þeir væru að landi komnir, og því síður höfðu þeir nokkra hugmynd um hvert halda skyldi, til að komast til mannabústaða, en líf eða dauði valt á hver stefna yrði tekin. Stóðu þeir nú þarna í einum hnapp úti í hríðinni, algjörlega ráðalausir um hvað til bragðs skuli taka. En allt í einu koma þeir auga á spor í snjónum fyrir ofan flæðarmálið, eftir einn mann og virtist þeim þau liggja upp frá sjónum. Þótti þeim þetta allundarlegt en þó afréðu þeir að fylgja förunum, í von um að hér væri allt með felldu, og að þau hlytu að liggja til mannabústaða. Eitt var sem þeir gátu ekki skilið, að þeim virtust förin glögg enda þótt alltaf drifi í þau og verða greinilegri eftir því sem þeir fjarlægðust strandstaðinn. Eftir langa göngu komu þeir að háum björgum og lágu sporin vestur með þeim. Eftir nokkra stund komu þeir að gili og lágu sporin þar upp. Fannst þeim enn réttast að fylgja sporunum, en gerðu það þó með hálfum huga, þar sem þeir vissu ekki hvað við tæki efra og gátu eins búizt við að koma þá og þegar í sjálfheldu, eða jafnvel að ganga fyrir björg. Þgar upp úr gilinu kom tók við graslendi og þegar sporin hurfu þeim voru þeir komnir að húsi einu, sem þeim virtist vera íbúðarhús. Börðu þeir að dyrum, en enginn gegndi því og ekki urðu þeir varir við neitt kvikt, enda ekki von til þess, því nú höfðu hin dularfullu spor leitt þá heim að bænum í Hjörleifshöfða, sem stendur í sextíu metra hæð yfir sjó, og var nú í eyði eins og áður er sagt.

Þegar Bretarnir höfðu gengið úr skugga um, að þarna væri enga lifandi veru að finna fóru þeir að reyna að komast inn í húsið til að fá skjól fyrir hríðinni, og heppnaðist þeim það. Lítilsháttar hey fundur þeir í einu herberginu, og hreiðruðu þeir um sig í því eftir beztu getu og biðu þess að aftur dagaði. Hugðu þeir gott til svefns og hvíldar. En undir eins og kyrrð var komin á í húsinu, fóru þeir að heyra einhvers konar undirgang, högg og barsmíðar. Furðaði þá mjög á þessu. En ef þeir hreifðu sig, reyndu að kveikja ljós, eða töluðu saman, hættu þessi hljóð og hávaði rétt á meðan, en undir eins og algjör kyrrð var komin á endurtók þetta sig, og linnti ekki fyrr en með dagsbirtunni. Þegar bjart var orðið, gátu þeir áttað sig á hvar þeir voru staddir og komust heilu og höldnu til mannabyggða.

Voru strandmennirnir síðan fluttir til Reykjavíkur, og sigldu þeir síðan heim til Bretlands. Þar sögðu þeir frá hinum dularfullu sporum, sem þeir röktu frá strandstaðnum að eyðibænum í Hjörleifshöfða, og birtist hún í brezku blaði.

Magnús Finnbogason, fyrrum bóndi í Reynishverfi í Mýrdal sagði mér frá þessum atburði, en hann hafði söguna frá Ingibergi Ólafssyni sjómanni frá Lækjarbakka í Mýrdal, sannsögulum og grandvörum manni

Ingibergur Ólafsson mun snemma hafa farið til sjós og var m.a. lengi í siglingum með ísfisk il Englands, og þar heyrði hann söguna. Þegar þeir Magnús og Ingibergur hittust og rifjuðu upp gamlar minningar, fyrir nokkru síðan, sagði Magnús honum að hann væri að dunda við að tína ýmsan fróðleik fré eldri tímum saman um Hjörleifshöfða. Þá spurði Bergur hvort hann hefði heyrt söguna um strandmennina og sporin í snjónnum, og sagði honum hans síðan eins og hún er sögð hér.

Skrudda III. Sögur, sagnir og kveðskapur/skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík, Búnaðarfélag Íslands gaf út, 1959, 174-177.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.