Herðaskjólið

Það eru tvær sögur af Settu og huldufólkinu í Mýrdalnum. Hér er sagan af Herðaskjólinu og svo er önnur sem heitir Rjólbitinn. Setta var vinnukona á Giljum og síðar á Holti í Mýrdal. 

Austur í Mýrdal er bær sem heitir Giljar. Er það réttnefni, því gil eru þar mörg með skvompum og skútum, sem vatn og vindar hafa holað inn í móbergið. Uppi undir berginu, fyrir ofan bæinn, er hellir sem þvottur var jafna þurrkaður í og heitir hann Þvottaból.

Um aldamótin var vinnukona hjá Helgu og Sigurði á Dyrhólum, sem hét Sesselja og var Magnúsdóttir. Hún hafði verið vinnukona á Giljum allmörg ár fyrir aldamótin, og hún sagði Ólöfu Sigurðardóttur eftirfarandi sögu þaðan. Sesselja var í daglegu tali nefnd Setta, og verður því nafni haldið hér.

Það var um 1880, að Setta á Giljum eignaðist efni í millipils, en sá galli var á, að það var ekki nógu breitt, vantaði ofan við. Settu langaði ósköp til að koma sér upp nýja millipilsinu fyrir jólin, en sá engin ráð til þess. Þá var engin verzlun komin í Vík og nauðsynjar víða af skornum skammti og var Setta orðin vonlaus um að geta komið flíkinni upp.

Þá var það einn morgun, að Setta fer upp í Þvottaból, í byrjun desember var það, og um nóttina hafði verið renningshríð, sem hafði sléttað yfir allt, þá sér hún þar í götuslóðinni, sem hún var vön að ganga, herðaskjól, og á því voru þrír látúnshnappar með rósaverki á. Þetta virtist vera mjög gömul flík, eftir sniðinu að dæma, og Setta hirti hana auðvitað og lýsti henni við fólkið heima á Giljum og bæjunum í nágrenninu. Enginn kannaðist neitt við herðaskjólið, en ekki datt Settu í hug að taka það til sinna nota, því hún var ráðvendnisstúlka.

Þá dreymdi hana eina nótt konu, sem kom til hennar og sagði, að hún skyldi ekki hafa áhyggjur af eignarréttinum yfir flíkinni, heldur nota sér hana sem bezt og bætti því við, að það skyldi verða henni að góðu. Setta fór að ráðum draumkonu sinnar, og þarna fékk hún tilvalið efni í renning ofan við millipilsið og tókst að koma því upp fyrir jólin.

Svo haldgott var efnið, að þegar Setta var vinnukona hjá Dyrhólahjónunum, rétt eftir aldamótin, þá var hún búin að slíta tveimur millipilsum og þá var þessi renningur ofan við þriðja pilsið – og enn heill. Einn látúnshnappur var þá enn á strengnum.

Engum í Mýrdalnum kom annað í hug en huldufólk hefði lagt herðaskjólið þarna á götuna handa Settu á Giljum.

(Skrudda III. Sögur, sagnir og kveðskapur. Skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík, Búnaðarfélag Íslands gaf út, 1959, 180-182.)

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.