Rjólbitinn

Það eru tvær sögur af Settu og huldufólkinu í Mýrdalnum. Hér er sagan af Rjólbitanum og svo er önnur sem heitir Herðaskjólið. Setta var vinnukona á Giljum og síðar á Holti í Mýrdal. 

Setta var mikið fyrir tóbak og tók meira í nefnið en almennt gerðist. Hún var vinnukona á mjög afskekktum bæ, í Holti í Mýrdal, þegar eftirfarandi atburður átti sér stað.

Hún varð einu sinni alveg tóbakslaus og var orðin ósköp hnuggin út af því og að kalla viðþolslaus – enda eru margar sögur til um vanlíðan neftóbaksmanna, þegar tóbakið er uppgengið. Þá var það alsiða í sveitum, að kvenfólk sinnti gegningum á meðan karlmennirnir voru við sjó á vetrarvertíðinni. Hefði verið til tóbakshorn á bænum, hefði Settu auðvitað verið hjálpað um það.

Dag einn, þegar Setta við við gegningar í heygarðinum, var hún óvenju pínd af tóbaksleysinu og varla mönnum sinnandi. Tóman baukinn var húm með í pilsvasanum og hyggst nú þreifa til hans í þeirri von að finna þó ekki væri nema örlitla lykt af honum. Stingur hún hendinni í vasann eftir pontunni, sem hún hafði svo oft gert áður undanfarna daga, en brá heldur en ekki í brún, þegar hún rekur hendina í vænan rjólbita, sem var um hálf alin á lengd. En svo ráðvönd var Setta að fundur þessi gladdi hana ekki, því hún vissi, að tóbak þetta átti hún ekki, og þrátt fyrir nær óviðráðanlega ílöngun datt henni ekki í hug að snerta það. Lagðist hún svo til svefns um kvöldið án þess að hafa fallið fyrir freistingunni. Dreymir hana þá að til hennar kemur kona, sem segir við hana: “Haf þú engar áhyggjur af rjólinu, Sesselja mín. Það er þér ætlað og sker þú það og brúkaðu það eins og þörf krefur.” Þegar Setta vaknaði sótti hún tóbaksfjölina og hnífinn og skar rjólbitann og setti í hrútspung – en þetta tóbak varð Settu svo drjúgt að henni sjálfri og öllum á bænum þótti furðu gegna.

Engum manni var þá til að dreifa í Holti, sem hugsanlegt væri að laumað hefði rjólinu í vasa Settu, og enginn ókunnugur maður hafði komið þar í langan tíma.

Setta sagði Ólöfu Sigurðardóttur frá þessu

(Skrudda III. Sögur, sagnir og kveðskapur/skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík, Búnaðarfélag Íslands gaf út, 1959, 182-183.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.