Undarleg óhljóð í Álftaveri

Hljóð og skjálftar í Skáldatjörn og Nykurtjörn
Hinn 16. október 1755 heyrðust allan daginn undarleg óhljóð í Skjaldatjörn og Nykurtjörn í Vestur-Skaftafellssýslu; voru þau svo mikil, að þau heyrðust langar leiðir, en jörðin skalf undir. Um kvöldið var kyrrt veður og heiðríkt. Þá hringdi stærsta klukkan á Þykkvabæjarklaustri sér þrisvar. Hún hékk í sáluhliðinu á kirkjugarðinum. Jón Ingimundarson, sem bjó þá á klaustrinu, heyrði þetta, og kona ein, sem var að taka inn þvott. Þau urðu óttaslegin og sögðu frá undrum þessum. Jón bóndi var ólyginn maður og sagði hann sögumanni mínum sjálfur, “að ei hefði verið sem við hefði komið verið, heldur hefði gefið af sér hvellan og langan hljóm; hver þá úti var, kom hinn og svo sá síðasti ei svo hvellur fyrst sem af höggi, en lengri og hvellari en vant er.”

[Eftir handriti séra Sæmundar Magnússonar Hólms, hrs. Bmfj. 333, 4to.]

Íslenskar þjóðsögur II. MCMXLV. Safnað hefur Ólafur Davíðsson. Akureyri, Þorsteinn M. Jónsson. Bls. 182

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.