Huldufólksbyggð við krossgötur

Huldufólkið hefnir ef á að skemma bústaði þess. 

Klettur heitir stuðlabergshóll rétt sunnan við krossgötur Hagabrautar og Kaldárholtsvegar. Gömul trú er að í klettinum sé huldufólksbyggð og þar megi ekki gera neitt jarðrask. Sigurður Sigurðsson (f. 1823) bóndi í Saurbæ braut gegn þessari bannhelgi þegar hann tók grjót úr Kletti til að stífla læk sem þarna rennur. Þetta var gert til að koma upp áveitu á engjaflesjur skammt frá.

“Engar sögur fara af áveitunni. Hitt var fólki fast í minni, að um það bil sem teppt var í lækinn, veiktist Sigurgeir sonur bónda á hörmulegan hátt. Varð um tíma nálega albrjálaður og aldrei samur síðan. Sigurður bóndi í Saurbæ bjó þar lengi snotru búi. Þó varð hann að víkja þaðan að verra jarðnæði. Fyrr gengu þó efni af honum, svo að hann var orðinn bláfátækur, síðustu búskaparárin. Ekki fór það milli mála: Margir töldu ólán hans hefjast, þegar hann rændi huldufólkið og reif grjót úr Kletti.”

Ólafur Pálsson bóndi í Saurbæ sagði að sem barn hefði hann alltaf haft óhug gagnvart því að fara hjá Kletti og faðir Ólafs, Páll Elíasson í Saurbæ (1918 – 1984) stóð í ströngu við að verja hól þennan þegar setja átti rafmagnsstaur ofan í hann. Ekki eru nema tæpir tveir áratugir síðan ung dóttir þeirra Ólafs og Guðrúnar Hálfdánardóttur í Saurbæ varð vör við huldufólk í Kletti, þá barn að aldri. Norðan Hagabrautar og gengt Kletti er svokölluð Brúarhylsslétta og þar uppaf eru svo svonefndir Akrar í Hagaholti sem segir frá í næsta kafla. Á þessum stað voru vegagerðarmenn með sína vinnuskúra fyrir nokkrum árum og þótti þá mjög undarlega bregða við um ýmsa hluti. Bifreiðar voru heitar að morgni líkt og þær hefðu gengið um nóttina og fleira yfirnáttúrulegt átti sér stað.

(Örnefnaskrár, Haga, Saurbæjar og Gíslholts, Þykksk.I, 132, ÓlPálss. )

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.