Huldufólksbyggðir og álagablettir í Kvíarholti – Álfadans og rauðleitar huldukýr

Huldufólksbyggðir og álagablettir í Kvíarholti

Vestast í túni Kvíarholts er hóll sem heitir Hellishóll og svo vitnað sé beint í örnefnaskrá jarðarinnar: “…eru um hann munnmæli, að hann megi ekki hreyfa. Austan við bæinn er hóll sem heitir Bjalli. Þar býr huldufólk.” Karl Þórðarson bóndi í Kvíarholti sagði að um Hellishólinn séu þau munnmæli að ef reynt er að grafa í hann sýnist bærinn brenna. Í Bjallanum var að sögn Karls talið vera huldufólk og þegar hann var barn var hann ásamt fleirum með hornabú þar. Krakkarnir voru varaðir við að henda grjóti í Bjallanum vegna huldufólksins. Ekkert sláttubann var á stöðum þessum, Bjallanum og Hellishól. Laust fyrir 1930 gerðist það að foreldrar Karls, þau Þórður Runólfsson og Margrét Kristjánsdóttir vöktu yfir kú sem komin var að burði. Þegar nokkuð var liðið á nótt og engin hreyfing var á kálfinum í kúnni fóru þau að sofa en voru að skammri stund vakin af ljósklæddri huldumey. Fóru þau að vitja um kúna sem var þá í burði (ÖR II, 76, Goðast. 6. árg. 2. h. 77 ——, KaÞó).

Álfadans og rauðleitar huldukýr

Á svokölluðu Breiðaviki sem er mýrarstykki í landi Kvíarholts, tæplega kílómetra suður af bæjarhúsum, sáust á 19. öld fimm eða sex huldukýr, rauðar að lit. Þetta var að vorlagi og horfðu margir á bænum á kýrnar þar sem þær voru á beit. Síðan tóku þær á rás austur Dýjalækjarheiði. Spurst var fyrir um kýrnar, en árangurslaust og taldi fólk víst að þarna hefðu verið huldukýr. Foreldrar Karls Þórðarsonar í Kvíarholti sáu eitt sinn um vetur ljósagang og álfadans við svokallað Brúnahorn í Breiðaviki. Og ljósagangur á þessum slóðum varð föður Karls, Þórði í Kvíarholti að minnsta kosti einu sinni til bjargar þegar hann átti leið þarna um í dimmviðri (ÖR II, 76, Goðast. 6. árg. 2. h. 77, KaÞ).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.