Mela-Manga röltir prjónandi um Meðallandið
Það bar til fyrir löngu, að stúlka ein umkomulítil, er Margrét hét, var á ferð um vetur á Kirkjumelunum í Meðallandi eða í nánd við þá. Var hún með prjóna sína, eins og títt var fyrr meir um konur, er þær fóru bæjarleið á þeim tíma árs. Veður var milt þenna dag, en mikil þoka. Spurðist aldrei til Margrétar lifandi framar; hún varð úti, en enginn vissi hvar, enda segir fátt af einum.
Þetta slys, sem mörg önnur, var kennt loðna manninum á Skarði, er getur hér á undan. En ekki virðist Margrét hafa orðið fegin hvíldinni, því að mjög þótti hún ganga aftur. Sást hún oft á Meðallandssöndunum og þó einkum á Kirkjumelunum. Alltaf var hún með hálfprjónaðan sokkbol og prjónaði í ákafa. Stundum heyrðu menn til hennar, en stundum urðu menn varir við návist hennar á annan hátt. Draugur þessi var nefndur Mela-
Manga, og gerði hún ýmsum, einkum þó smalamönnum, skráveifur; lét þeim til dæmis sýnast kindur, þar sem ekki var annað en steinar eða fífubreiður, er að var komið. Og fleiri sjónhverfingar gerði hún þeim.
Maður er nefndur Sigurður og átti heima á Botnum í Meðallandi, er saga þessi gerðist. Hafði hann fjárgeymslu á hendi. Eitt sinn var hann á ferð nálægt Melunum í dimmviðris-kafaldi. Villtist hann og vissi lengi ekki, hvert hann fór. Heyrði hann sífellt suðað og endurtekið sama orðið í kringum sig: „Siggi, Siggi, Siggi, Siggi“. En er þetta hafði gengið lengi, fór Sigurði, sem var þó geðspektarmaður, að renna í skap, og kallaði hann heldur styggilega: „Þú veizt þó, hvað ég heiti, helvítið þitt?“ Þá brá svo við, að röddin þagnaði, en maðurinn komst á rétta leið.
Talið var víst, að Mela-Manga hafi gert glettingar þessar.
(Einar Guðmundsson safnaði. 1932. Íslenskar þjóðsögur I. „Mela-Manga.“ Ólafur Erlingsson var kostnaðarmaður útgáfunnar, Rv. s. 17-19)