Vofa hyggur á meyjamál

Endur fyrir löngu var piltur  á bæ í Dalssókn undir Eyjafjöllum, og lagði hann ofurást á stúlku á næsta bæ. Ekki galt hún honum í sömu mynt, enda hefði það verið til lítils, því að foreldrar hennar voru vel við álnir, en hann fátækra manna. Af þessu varð pilturinn þunglyndur úr hófi fram og fór mjög einförum. Fór því fram, þar til dauðinn líknaði honum í líki landfarsóttar, sem þá gekk um sveitir, og var hann jarðaður að sóknarkirkju sinni í Stóra-Dal.

Þau umskipti urðu nú á ráði stúlku þeirrar, sem sturlað hafði piltinn, að hún hætti að njóta svefns um nætur og þótti henni sveimur af piltinum halda fyrir sér vöku og ásækja sig. Kom sú sturlun líka að henni á öðrum tímum sólarhringsins. Fannst foreldrum hennar og vandamönnum þetta mein mikið, og horfði til vandræða, ef ekki yrði bót á ráðin.

Kona sú átti þá heima í Stóra-Dal, sem Arnþrúður hét, roskin að aldri. Hafði hún orð á sér fyrir að vera mikil fyrir sínum dyrum og var rammskyggn. Miklar sagnir hafa gengið af henni, en engan sér þeirra nú stað.

Góðviðrisdag einn um hásláttinn var Arnþrúður ein heima í Stóra-Dal, og þótti henni tómlegt inni í bænum, svo hún settist út á kirkjugarðsvegg með prjóna sína. Verður henni þá litið til leiðis piltsins og þykir nú kynlega að því búið. Er þar opin gröf og moldarhrúgur beggja vegna hennar. Arnþrúður lét slíkt ekki setja sig úr jafnvægi; rakti hún af hnykli sínum og hnýtti síðan að honum og kastaði honum ofan í gröfina. Beið hún svo róleg átekta.

Eftir nokkra stund kom grafarbúinn og ætlaði að hverfa til grafarinnar, en hikaði við, er hann sá hnykilinn þar kominn. Sneri hann sér þá til Arnþrúðar og bað hana að varna sér ekki grafarinnar.

Segja verður þú mér fyrst, hvernig á flakki þínu stendur,

sagði þá sú fullorðna og var ekki hýr á svipinn. Til þess var grafarbúinn tregur, en varð þó undan að láta. Kvaðast hann jafnan vitja stúlku sinnar, og væri það orsök landsemi þeirrar, sem henni amaði. Myndi hann ekki af því láta, meðan annars væri kostur, því engan fengi hann frið í gröf sinni. Bað hann svo Arnþrúði að taka til sín hnykilinn, en ekki lá það enn laust fyrir. Sagðist hún ekki gera honum neinn kost grafarinnar, nema hann lofaði að hreyfa sig ekki framar úr henni. Húsvilltur vildi hann ekki verða, og kom þar, að hann játaði þessu. Dró Arnþrúður þá hnykilinn upp úr gröfinni, en grafarbúinn steypti sér niður í hana, svo að sá í iljar honum. Í sömu svipan hurfu moldarhrúgurnar ofan í gröfina og komst hún í samt lag, svo að þar urðu engin missmíði á séð. Arnþrúður las þá nokkuð gott yfir henni og tók svo aftur til við prjónaskap sinn.

Alveg tók fyrir langsemi stúlkunnar eftir þetta, og varð hún piltsins aldrei vör framar, hvorki í vöku né svefni.

Magnús Magnússon (1864-1943) Lambhúshóli sagði mér helztu atriði þessarar sögur.

Eyfellskar sagnir. II. bindi. Þórður Tómasson frá Vallnatúni. Reykjavík 1949, Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar. Bls. 108-109

(Orðið langsemi er skýrt í íslenskri orðabók sem leiðindi. Í þessu tilfelli merkir það sennilega mikil vanlíðan eða þunglyndi.)

Tengdar sögur

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.

Kjallakatungur eða Kjalrákartungur

Kjalrák eftir skip í Þjórsárdal skýrir örnefnið. Tröllafjölskylda sem dagaði uppi