Drangurinn í Drangshlíð

Pilturinn hvarf að lokum í dranginn

Í Drangshlíð við Eyjafjöll er stór drangur í túninu, því nær tuttugu mannhæðir, og öðrum megin við hann eru hellar og stór ból inn undir hann og hafa bændur þar allt sitt hey og fjós. Í fjósinu lifði ekkert ljós, hvernig sem reynt varð að halda því lifandi. Aldrei þurfti að vaka þarf yfir kú um burð. Ef kýr bar á nóttu, sem oft var, þá var kálfurinn uppi í básnum hjá henni á morgnana og hankaðist þá kúnum aldrei á. En ef nýr bóndi kom á bæinn og lét af vana vaka þar yfir kú varð eitthvað að henni og fólk hélst þar ekki við á nóttunni í dimmunni fyrir ýmislegu er það sá og heyrði.

Og einn maður í ungdæmi mínu hafði verið í Skarðshlíð sem vantaði dögum saman og var hann hjá huldufólki í Drangnum og sagði að huldustúlka væri að sækja eftir að eiga sig. Og hann sagði þar í Drangnum væri margt fólk og gott að vera hjá því, það væri skikkanlegt og reglusamt og fullt svo fallegt fólk sem við. Hann sagði að það ætti kirkjusókn í Skóganúp. Þar væri stór kirkja og þar væri önnur kirkja í dalnum því þar væri margt fólk til og frá. Hann sagði það ætti fé, kýr og hesta og skip og reru karlmenn mjög oft og fiskuðu eins og við og flyttu heim á hestum og mjög lík væri öll hentisemi hjá þeim og okkur. Það hefði lampaljós og kerti.

Og svo þegar árið var liðið og hann losnaði úr vistinni, því hann var vinnumaður , var alskrafað að hann hafi horfið og sást ekki meir. Ekki var leitað að honum því fólk vissi hvert hann fór þó hann segði ekki frá því.

Handrit Eiríks Ólafssonar (1823-1900) frá Brúnum, 1899

(Íslenskt þjóðsagnasafn, 4. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 200-201)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.