Ísleifur í Skógum og hulduskipið

Í Skógum var bóndi er Ísleifur hét, afi Ólafs gullsmiðs í Reykjavík. Hann fór á fjöru einu sinni sem oftar í tunglsjósi og góðu veðri og er hann kom fram á kampinn sá hann að skip var að lenda og að menn voru að bera upp í fjöruna, árar fyrst og svo fisk og lúðu. Hann sagðist hafa farið af baki hestinum og horft á þetta stundarkorn og hugsað með sér:

Þetta er huldumannaskip og huldumenn

og datt í hug að tala við mennina og gekk niður í fjöruna. Og er hann kom niður að fiskakösinni þá kippir hesturinn af honum taumunum, svo að hann snýr við og nær hestinum aftur, og er hann lítur við sá hann ekkert, hvorki skipið, menn né fisk. Þetta hafði verið fram af Skóganúp, þar sem maðurinn sagði að stóra kirkjan huldufólksins væri. Þessi Ísleifur hafði verið stilltur og óskrafinn maður.

Handrit Eiríks Ólafssonar (1823-1900) frá Brúnum, 1899. Sjá einnig söguna Drangurinn við Drangshlíð sem segir af huldufólki sem þar bjó.

(Íslenskt þjóðsagnasafn, 4. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 202)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.