Útilegumenn banna Einari að grafa eftir röl í Einhyrningsfjöllum á Álftaversafrétti
Hér er ein lítil saga af einum manni er Einar Jónsson hét og bjó í Ketilsstaðahjáleigu í Mýrdal. Hann var vanur að fara í sláttarlok á haustin til róta austur í Einhyrningsfjöll með fleiri mönnum. En svo bar til nálægt 1840-1850 að hann lá veikur þegar hans gömlu samferðamenn fóru á rótafjall. Svo batnaði honum aftur skömmu eftir að þeir komu heim af fjalli. Tekur hann sig þá til, þó áliðið væri sumars, að fara og finna sér rót, eins og vant var, og tekur með sér dreng, 13-14 ára gamlan. Fer hann síðan þangað sem hann var vanur að grafa upp rótina en fann þar ekkert því hinir voru búnir að vera þar, sem áður fóru, og taka það sem til var þar af rótum. En Einar tjaldar þar sem hann var vanur.
Síðan fer hann lengra og lengra inn með hömrum sem standa neðan undir Kötlujökli og eru kölluð Einhyrningsfjöll, skuggaleg og ljót. Er Hólmsá þar á aðra hönd en Kötlujökull á hina. Þar er sandorpið land með litlum grasteigingum og er þetta eiginlega afréttur Álftveringa og er afleiðing af Mýrdalssandi austnorðan og finnst þar hvannarót á stöku stöðum.
Nú fer Einar lengra en hann var vanur og fer að finna dálítið snatt af rót. Skilur hann þar drenginn eftir í einum stað en fer lengra sjálfur yfir eina hæð eða háls og finnur þar næga rót og er þar að grafa með makindum. Þá veit hann ekki fyrri til en það kemur til hans maður á sauðsvörtum prjónafötum með atgeiri í hendi sér og segir: „Hver hefir leyft þér að grafa rót hér? ‟
Einar segir: „Það er leyfilegt fyrir hvern sem vill að grafa hér rót. Þeir sem eiga landið hafa ekki bannað mönnum það. ‟
Og í sama vetfangi snarast Einar að honum og setur rótagrefilinn af öllu afli á gagnaugað á honum. Maðurinn fleygðist út af og rak upp ógurlegt org. Ekki sagði Einar frá hvort hann gaf honum fleiri högg eða ekki. En hann sagðist ekki hafa þorað annað en flýta sér í burtu, hefðu fleiri menn verið nálægt og heyrt öskrið. Stökk hann því með það sama frá rótinni og til drengsins og hlupu þeir svo sem fætur toguðu til hestanna og drifu á þófareiðin og gripu sumt af dótinu, en sumt skildu þeir eftir, og rótin lá kyrr þar sem hún var grafin.
Svo riðu þeir slíkt sem aftók út allan sand út af Hafursey og þaðan að Höfðabrekku. Þar hægðu þeir á hestunum því þeir hræddust ekki eftirhlaup úr því þangað var komið. Þegar Einar kom heim urðu nágrannar hans hlessa og spurðu hvort hann hefði orðið veikur og snúið aftur eða hvort eitthvað hefði orðið, að hjá honum. En Einar lét lítið yfir því og sagði engum frá þessu fyrri en kom langt fram á vetur. Þá fór hann að segja einstaka kunningum sínum söguna og að hann færi þangað ekki oftar, enda fór hann þangað ekki eftir það. Einar var snarmenni og karlmenni og eftir því kjarkmikill og þekkti ég (Eiríkur frá Brúnum) manninn vel.
Handrit Eiríks Ólafssonar (1823-1900) frá Brúnum, 1899.
(Íslenskt þjóðsagnasafn, 2. bindi. 2000. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 356-357)