Missögn af Gissuri á Botnum

Í Búrfelli upp af Þjórsárdal heitir Tröllukonugröf; á þar að vera grafin Þuríður Arngeirsdóttir er Landnáma getur um að „Þjórsdælir vildu berja grjóti í hel”.  Tvennum sögnum fer um hana og systur hennar er öllum ber saman um að hafi átt heimkynni í Næfurholtsfjöllum; því flestar sagnir segja að tröllkonan í Búrfelli (Þuríður) hafi kallað til systur sinnar í Næfurholtsfjöllum eins og hér segir að framan og beðið hana um pottinn er hún sá manninn ríða, en aðrir segja að tröllkonan í Næfurholtsfjöllum hafi kallað til hinnar og sagt:

  „Systir, ljáðu mér pott.“

  Tröllkonan í Búrfelli:  „Það er ekki gott.  En hvað á að gjöra við hann?“

  Tröllkonan í Næfurholtsfjöllum: „Sjóða í honum mann.“

  Tröllkonan í Búrfelli: „Hver er hann?“

  Tröllkonan í Næfurholtsfjöllum: „Gissur á Botnum, Gissur á Lækjarbotnum.“

  Þá svaraði enn tröllkonan í Búrfelli: „Ekki færðu hann; hann er kámugur um kjaftinn.“

Maðurinn hafði nýlega verið til altaris og því unnu þær systur honum ekki mein.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 154-155).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.