Reimleikar í Kálfafellskoti

Á seinni hluta 19. aldar varð maður úti í Fljótshverfi og þótti ganga aftur og sjást eins og hann var búinn þegar að hann dó. Hér segir Guðrún Filippusdóttir frá miklum reimleikum sem urðu í Kálfafellskoti þegar kona mannsins lést á næsta bæ og móðir hennar, Þórunn Gísladóttir ljósmóðir, hafði farið að heiman til að leggja til líkið.

Það var aldrei hægt að leggja til lík án þess að mamma væri þar við, ef að mögulegt var að ná í hana. Nú deyr einu sinni gömul kona á næsta bæ, og það er komið eftir mömmu um nóttina til þess að leggja gömlu konuna til. En hjá okkur er systir þessa manns, sem átti að hafa gengið þarna aftur og þetta er einmitt konan hans sem mamma er að leggja til. Svo fer nú mamma en þegar hún er nýfarin, þá fer Gunna gamla að hamast, og segir ,,Jesús minn, Jesús minn, nú kemur hann, nú kemur hann, nú ógnar hann mér.“ Það var hann Stefán bróðir hennar, ,,Og nú ætlar hann að fara upp yfir mig.“ Og hún bað fyrir sér og bölvaði– þetta var rugluð kerling. Elsta systir mín var sextán ára sem var þarna heima, með okkur fjögur yngri börn. Þeir voru inn í Núpsstaðarskóg pabbi og bræður mínir að gera til kola. Svo að við vorum ein heima um nóttina. Fjártík sem var þarna niðri tekur að hamast, mamma hafði gleymt að láta aftur stofuhurðina þegar hún fór, og við heyrðum það að Brana tekur sig til og stekkur upp á borð og niður aftur sitt á hvað og geltir og hamast alveg eins og hún væri vitlaus. Og við vorum náttúrulega svo logandi hrædd krakkarnir og sofnuðum ekki einn einasta dúr það sem eftir var af nóttinni. Svo að þetta var nú ekki efnilegt. Og meira að segja, það var klukka á þili upp á vegg sem var búin að standa í mörg ár upp á hillunni án þess að ganga, hún tekur til að hamast líka. Og þetta var nú álitið draugagangur, Stebbi gamli átti að vera að hræra í þessu öllu saman. En ekkert gerði hann okkur krökkunum nema þetta, við vorum náttúrulega hrædd.

(Sögn Guðrúnar Filippusdóttir. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í september 1970 (SÁM 90/2325): https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012660

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.