Huldubörnin á Strönd

Strönd í Meðallandi

Það var trú manna að hægt væri að koma í veg fyrir skyggni með því að bera messuvín í augun. Hér segir Rannveig Einarsdóttir frá Strönd í Meðallandi frá því þegar föðurbróðir hennar leikur sér við huldubörn á Strönd og amma hans ber messuvín í augu hans á eftir af ótta við að hann yrði hylltur af álfum.

Þegar hann var drengur, þá sagðist hann hafa verið eitt sinn úti á túni með Karítas ömmu sinni. Hún var hún að kljúfa skán á móts við fjárhúsdyr. Svo að hann sér að þar eru þrjú börn í dyrunum að leika sér. Og hann hleypur til ömmu sinnar og biður hana að lofa sér að fara og leika sér við börnin. En henni bregður heldur illa við, því að trúin var þá svo mikil að það gæti verið að álfar hylltu börnin í burtu. Hún leyfir honum það nú í þetta sinn, en hann sagði að hún hefði ekki látið það bíða marga daga að fara með sig austur að Langholtskirkju og bera vígt vín í augun á sér, messuvín. Og eftir það sagðist hann aldrei hafa séð og saknaði þess mjög mikið.

(Eftir sögn Rannveigar Einarsdóttur. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2594): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015133

Myndin er tekin á Strönd í Meðallandi. (Eig. Loftur Runólfsson)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.