Ómþýðar raddir sem enginn veit hvaðan koma
Söðlasmíðaverkstæði er nú í gamla Rjómaskálanum á Rauðalæk og verslun með reiðtygi. Áður hefur verið þar Kaupfélag og vitaskuld rjómabú fyrstu árin. En laust upp úr aldamótum meðan rjómabúið var starfrækt bjó þar um tíma söðlasmiðurinn Árni Halldórsson og lifði af iðn sinni. Hann varð oft var við undarlegt mannamál lækjarmegin í skálanum undir skálavegg. Þar var eins og tveir væru að tala saman og nokkrir hafa síðar heyrt þessar raddir allt fram yfir miðja öldina. Þess er getið að fólk greinir ekki orðaskil eða hvað sagt er en raddirnar eru ómþýðar og virðast vera tveggja eða jafnvel fleiri manna.
(HH1)