Það var draugagangur í gömlu Pulu og kirkjan var því færð í Marteinstungu. Hundraðsmannahellir er vestur af Pulutjörn. Þar leituðu hundrað manns skjóls vegna sóttar sem gekk yfir. Hellirinn hrundi, fólkið lést og gekk aftur.
Gamla – Pula heita friðlýstar næsta ógreinilegar bæjartættur skammt frá vegamótum Hagabrautar og Landvegar, vestan Hagabrautar. Austan Hagabrautar er svo Pulutjörn. Þjóðsagan segir að í Gömlu Pulu hafi áður verið kirkjustaðurinn Stóra – Pula en eftir pláguna síðari 1495 hafi gerst svo reimt þar að bærinn var fluttur. Var leitað ráða Marteins biskups Einarssonar í Skálholti sem lagði til að kirkjan skyldi flutt á bæ þann sem þá hét Sóttartunga en heitir eftir þessa atburði Marteinstunga og stendur kirkja þar enn. Guttormur Gunnarsson í Marteinstungu hafði heyrt þessa sögu og það með að biskup hafi talið næsta ófært fyrir draugana að Marteinstungu vegna þess hve bærinn var rammbyggilega afgirtur af mýrarsundum á alla vegi. Nú hefur land umhverfis bæjarhólinn í Marteinstungu verið þurrkað en í minni Guttorms sem er fæddur í Marteinstungu 1913 var mjög ógreiðfært að bæ þessum.
Ritaðar heimildir benda reyndar til þess að Marteinstungunafnið sé eldra og þá væntanlega dregið af því að í pápískri tíð var kirkjan í Marteinstungu helguð heilögum Marteini en líklegt er að kirkja hafi staðið í Marteinstungu frá því um 1100.
Tengt sögunni um reimleika á stórbýlinu Pulu er saga um að hey hafi verið geymt í helli í túninu. Í jarðskjálfta hrundi hellir þessi og þar lét fjósamaðurinn á staðnum lífið en ekki er vitað hvort það var afturganga hans sem síðan eyddi bænum. Laut norðan við tún Gömlu Pulu og rétt norðan við Hagabraut og vestur af Pulutjörn bendir til að þar geti verið hruninn forskáli að helli. Örnefnið Hundraðsmannahellir í Pululandi er talið eiga við þennan helli.
Ólafur Helgason bóndi í Pulu hafði heyrt söguna á þá leið að þegar sótt gekk yfir hafi heimilisfólkið í Stóru Pulu, um hundrað manns, leitað skjóls með eigur sínar í Hundraðsmannahelli. Hellirinn hrundi svo yfir fólkið sem lét þar með lífið og gekk þegar aftur. Ekki má hrófla við helli þessum. Það var reynt á 20. öld en þeim sem það gerði sýndist þá skyndilega að bæir allt í kring stæðu í björtu báli. (Mbl.)
Þrátt fyrir að uppruni þessara reimleika sé rakinn til margra drauga er hefð fyrir því að tala um Puludrauginn í eintölu. Hans hefur orðið vart allt fram á síðustu ár, m.a. í tengslum við umferð og vegagerð á þessu svæði. Til skamms tíma var hlykkur á Landvegi rétt ofan við heimreiðina að Pulu og þar gerðist það grunsamlega oft að bílum hlekktist á og fóru jafnvel útaf. Var það kennt Puludraugnum en nú hefur honum verið gert erfiðara fyrir með því að vegstæðinu hefur verið breytt og vegurinn er allur malbikaður.
Þegar Hagabraut var lögð milli Stóru Pulu og Hundraðsmannahellis rétt seint á 20. öld urðu margs konar kynjar meðal vegagerðarmanna sem menn kenndu Puludraugnum. Guðrún Guðlaugsdóttir blaðakona Morgunblaðinu birtir eftirfarandi frásögn af vegagerðinni eftir Holtamönnum í blaði sínu þann 8. september 1991. “… Maður í stórri vinnuvél hálfsturlaðist af hræðslu þegar vélin var dregin aftur á bak, þrátt fyrir að hún væri í fyrsta gír. Þetta er aðeins eitt dæmi um furður þær sem urðu við lagningu vegar þarna. Hvað eftir eftir annað biluðu og skemmdust þar vélar án sjáanlegra orsaka og loks kvað svo rammt að þessu að menn gáfust upp við að grafa upp úr vegarstæðinu og báru bara ofan á móana og prísuðu sig sæla að komast lifandi frá þessu. Það hefur lengi legið það orð á að ekki mætti hrófla við steinum á þessu svæði, það gæti orðið þeim hinum sama vís dauði.”
Bærinn í Pulu sem nú er í byggð nefndist Litla Pula í Jarðabókinni 1708 og er talinn byggjast fyrst um 1660 en Gamla Pula kemur fyrir í heimildum frá því um 1300. Bæjarnafnið Pula er talið komið af enska orðinu pool og merkir tjörn
(Örnefnaskrá Pulu, GJ IX, 75, ÁM I, 319, Sunnlenskar byggðir, V, 263, Mbl. 8. sept. 1991, 28, ÓlH, GÁG)