Skammt frá gamla bæjarhólnum á Hárlaugsstöðum er lítill nafnlaus hóll sem ekki má hreyfa við og skammt þar vestan við í túni er leiði eða Haugur sem ekki má heldur hrófla við. Báðir þessir staðir tilheyra nú nýbýlinu Borgarkoti sem byggt var út úr Hárlaugsstöðum. Árni Kristinsson bóndi í Borgarkoti heyrði svo sagt frá þessum stöðum að þar mætti slá en engu raska. Hann hafði heyrt að munnæli þessi tengdust því að þarna hafi verið hálfkirkja og leiðið því ef til vill frá fornum kirkjugarði.
Árni sagði bókarhöfundi þá sögu af frænda sínum Erlendi Jónssyni á Hárlaugsstöðum (1899 – 1980) að þegar Erlendur var 6 ára gamall týndist hann í töluverðan tíma. Þegar barnið kom svo fram sagðist það hafa verið í Skrambhól, drukkið þar þrjá bolla af kaffi og týnt öðrum skónum. Örnefnið Skramphóll er óþekkt í landi Hárlaugsstaða en sumir töldu það vísa til nafnlausa álagahólsins við bæjarhús og væri þetta þá nafn sem huldufólkið notaði um þennan bæ sinn.
Guðlaug Narfadóttir (1897 – 1984) í Dalbæ í Flóa var kaupakona á Hárlaugsstöðum sumarið 1924. Hún skráði sagnir um huldufólk í klettaborgunum á bænum sem gerast í tíð húsbænda hennar, þeirra Jóns Runólfssonar (1965 – 1934) og Vilborgar Jónsdóttur (1866 – 1940).
“Eitt sinn á fyrstu búskaparárum þeirra hjóna var lítið um mjólk, aðeins ein kýr hreytandi, en börnin mörg og ung. Þetta var um haust, og var snemmbæra að stálma. – Eina nótt dreymdi Vilborgu húsfreyju, að til hennar kæmi kona, er hún bar ekki kennzl á. Hafði hún ask í hendi og bað Vilborgu um mjólk í askinn. – Það get ég ekki – svaraði Vilborg, – því að ég á tæplega í barnspelann. – Varð konan þá reið og sagði, að hún skyldi ekki hafa betra af neitun þessari. – Morguninn eftir að snemmbæran bar, fannst hún dauð í básnum sínum. Næstu nótt dreymdi Vilborgu hina sömu konu. Kom hún til Vilborgar, leit glottandi á hana og mælti:- Þótti þér þetta betra?”
Aðra sögn skráir Guðlaug þar sem hún er sjálf sjónarvottur. Þá horfðu þau Guðlaug og Jón bóndi á mann við slátt rétt við fornar lambhústættur við Hárlaugsstaðakletta. Töldu þau bæði að þar væri Guðlaugur sonur Jóns að verki en á meðan þau horfðu var sagt að baki þeim: Á hvað eruð þið að horfa? Var þar kominn sami maður og um leið og þau Jón og Guðlaug litu af sláttumanninum hvarf hann og engin sláttuför sáust þar sem sláttumaðurinn hafði staðið. Síðan segir Guðlaug:
“Mér var sagt, að þetta hefði oft sézt áður, og ævinlega hefði sláttumaðurinn líkst einhverjum heimamanna. Jóni húsbónda mínum varð að orði, þegar við sáum bæði sláttumanninn: – Þeir eru þá farnir að slá þarna!”
(Örn á Steðja (Jóhann Örn Jónsson): Sagnablöð, Skuggsjá 3. bindi, 7. – 9. hefti. 1. – 3. hefti. Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar, Akureyri. Óársett, bls. 30, ÁrniKrist.)