“Þótti þér þetta betra?” og Álfabyggðir á Hárlaugsstöðum

Þótti þér þetta betra?

Einhverju sinni vitraðist álfkona Vilborgu Jónsdóttur (1866 – 1940) húsfreyju á Hárlaugsstöðum. Þetta var snemma í búskap Vilborgar og manns hennar Jóns Runólfssonar. “Eitt sinn á fyrstu búskaparárum þeirra hjóna var lítið um mjólk, aðeins ein kýr hreytandi, en börnin mörg og ung. Þetta var um haust, og var snemmbæran að stálma. – Eina nótt dreymdi Vilborgu húsfreyju, að til hennar kæmi kona, er hún bar ekki kennzl á. Hún hafði ask í hendi og bað Vilborgu um mjólk í askinn. Það get ég ekki – svaraði Vilborg, því ég á tæplega í barnspelann. – Varð konan þá reið og sagði, að hún skyldi ekki hafa betra af neitun þessari. – Morguninn eftir að snemmbæran bar, fannst hún dauð í básnum sínum. Næstu nótt dreymdi Vilborgu hina sömu konu. Kom hún til Vilborgar, leit glottandi á hana og mælti: – Þótti þér þetta betra?” (Örn á Steðja (Jóhann Örn Jónsson): Sagnablöð, Skuggsjá 3. bindi, 7. – 9. hefti. 1. – 3. hefti. Bókaútgáfa Pálma H. Jónssonar, Akureyri. Óársett, bls. 29)

 

Álfabyggðir að Hárlaugsstöðum

Sunnan og vestan við gamla bæjarstæðið á Hárlaugsstöðum eru svonefndir Vesturklettar og þar er talin álfabyggð. Sigurlaug Steingrímsdóttir sem nú er húsfreyja á Hárlaugsstöðum tók einu hauskúpu úr hrossi sem lá í klettum þessum og bar hana heim í bæ. Erlendur Jónsson bóndi (1899 – 1980) varaði við þessu og taldi hauskúpuna tilheyra huldufólkinu í Vesturklettum. Sama sumar misstu Hárlaugsstaðamenn þrjú hross á Hárlaugsstöðum, eitt þeirra var í eigu Sigurlaugar, meri sem hét Silla í höfuðið á eigandanum. Annað var folald sem Guðmundur Gíslason, maður Sigurlaugar átti og þriðja var taminn reiðhestur. Öll misfórust þessi hross með undarlegum hætti, reiðhesturinn hnaut á jafnsléttu og brotnaði, merin fannst dauð án nokkurra orsaka en folaldið fórst í dýi. Eftir þessar hremmingar ákvað Sigurlaug að skila hauskúpuna á sama stað og hún tók hana þar hefur hún legið síðan þó lítið sé nú eftir af henni. Atburður þessi varð á áttunda áratug 20. aldar. Fram á okkar daga hefur börnum verið tekinn vari fyrir að vera með ærsl og læti í Vesturklettum.

Önnur álfabyggð er í svokölluðum Kirkjukletti niður undan nýja íbúðarhúsinu á Hárlaugsstöðum. Rétt austan við Kirkjuklett er lítið sund og þar handan við taka við svonefndir Maríuklettar. Skammt þar austan við í landi Efri – Hamra er lind sem heitir Maríulind en engar sagnir eru tengdar þessum Maríunöfnum. “Ef til vill hefur kirkjan í Kirkjuklettu verið helguð Maríu,” sagði Árni Kristinsson bóndi í Borgarkoti í samtali við bókarhöfund.

(_____, SiSt, KrA, ÁKr, Örnefnaskrá Hárlaugsstaða, ÁrniKris

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.