Álög á Hjallloftinu á Hárlaugsstöðum og Hárlaugur Hárlaugsstaða

Álög á Hjallloftinu á Hárlaugsstöðum

Álög voru einnig tengd austasta húsinu í gömlu bæjarröðinni á Hárlaugsstöðum og hét það hús Hjallloftið. Á 20. öld ætlaði fyrrnefndur Erlendur á Hárlaugsstöðum eitt sinn að stækka þetta hús og hreyfa þar með við gömlum hleðslum. Þá vitraðist honum kona í draumi sem sagði honum að hreyfa ekki við neinu á þessum stað. Börn voru smeik við að fara inn á Hjallloftið og margir töldu að eitthvað óhreint væri þar á sveimi. Seint á 20. öld var hús þetta nýtt fyrir kýr og þá var steyptur gafl framan við gamla vegghleðslu innst í húsinu og stendur þessi steypti veggur enn og ver gömlu hleðsluna. Einhverntíma mokuðu þeir bræður, Erlendur og Árni??? Jónsson í Borgarholti (1905-1989) upp mold við Hjallloftið til þess að blanda henni við kúahland svo dreifa mætti hlandinu yfir tún. Þá komu þeir niður á mannabein á þessum stað og er jafnvel talið að þarna hafi til forna verið kirkjugarður. (ÁrniKrist., SiSt, KrA)

Hárlaugur Hárlaugsstaða

Engar heimildir eru um af hverju nafn Hárlaugsstaða er dregið en elsta heimild um bæinn eru frá 16. öld. Á þeirri öld er bærinn ýmist nefndur Hárlaugsstaðir, Jarnligstaðir og Harðlaugsstaðir og síðar alltaf Hárlaugsstaðir. Talið er að bæjarnafnið sé dregið af mannsnafninu Harðlaugur eða Hárlaugur þó svo að hvorugt nafnið þekkist í íslenskum ættfræðiheimildum. En þó vafamál sé að bærinn sé heitinn eftir raunverulegum Hárlaugi átti bærinn samt eftir að verða nafngjafi. Snemma á 20. öld var Jónína Ragnheiður Kristjánsdóttir frá Heysholti á Landi (1890- 1974) vinnukona á Hárlaugsstöðum og líkaði vistin vel. Þá hét hún því að yrði henni barna auðið skyldi hún gefa syni nafnið Hárlaugur. Jónína bjó síðar á Hvítárbakka í Biskupstungum og eignaðist með manni sínum 8 syni og 5 dætur. Einn sona hennar var Hárlaugur Ingvarsson bóndi í Hlíðartúni í Biskupstungum (1928 – 2003). (ath hjá rúnu…, Vefur Örnefnastofnunar 30. janúar 2006, http://www.ornefni.is/d_skoda.php)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.