Amerískur kvendraugur í masóníti Sléttalands

Reimt er í Sléttalandi við Suðurlandsveg. Hús þetta var byggt sem Félagsheimili um 1950. Húsið var klætt innan með masóníti sem tekið var úr amerískum herbragga við Helgafell í Mosfellssveit. Braggi þessi var hluti af hersjúkrahúsi sem þarna stóð á stríðsárunum. Talið er að viðum þessum hafi fylgt afturganga amerískrar hjúkrunarkonu sem fórst voveiflega. Samkvæmt frásögn Péturs Björnssonar í bókinni 10 sögur úr Dulheimum lögðu tveir samlandar konunnar ást á hana. Sá þeirra sem hallloka fór í þeirri keppni varð stúlkunni síðan að bana með því að aka á hana.

Fjölmargir hafa séð hjúkrunarkonunni bregða fyrir á Sléttlandi og lýsa henni flestir eins. Hún er í dökkhærð, hvítum hjúkrunarkonubúningi og með hvítan kappa um höfuðið. Lítil kona og frekar fríð sýnum. Samkomuhald í húsinu gekk frá fyrsta degi illa og flestum þótti óþægilegt að vera þar inni. “Það var reynt að halda böll í þessu húsi en það heppnaðist ekki. Það var eins og allt doðnaði þar upp, enginn kraftur kom nokkurn tíma í dansinn eða músíkina. Það var eins og öllum liði illa þarna,” segir Sigurður Jónsson vörubílsstjóri frá Herríðarhóli í samtali við Morgunblaðið 8. september 1991.

Þegar vegavinnumenn höfðust við í þessu húsi á sjötta áratug 20. aldar urðu þeir oft varir við hark og háreysti og svefnfriður oft lítill um nætur. Húsið var barið utan og stundum heyrðist eins og bekkjum í því væri fleygt til. Engar sagnir eru þó um að vofa þessi hafi gert mönnum mein og ásókn hennar minnkað á seinni árum.

Ingivaldur Ólafsson (1910 – 1996) sem vann að smíði hússins sagðist í samtali við Morgunblaðið þann 15. september 1991 hafa fundið fyrir óþægindum við smíði þess og gat aldrei verið að verki eftir að skyggja tók. Hann sagði í viðtalslok.: “En nú er búið að skipta um klæðingu í Sléttalandi og reyndar þak líka. Ég tel því víst að öllum reimleikum sé af húsinu létt, því vofan sem sást og heyrðist í hefur án efa fylgt gamla masónítinu úr herspítalanum.”

.. tala við ábúendur nú… (Mbl. 8. sept. 1991, 28 og 15. sept. 1991, 6c)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.