Saga af því að skrímsli fylji meri og önnur saga af því að skrímsli hafi náð til kýr. Merin og kúin eignast vatnskennd afkvæmi sem ekki lifa.
Elías Halldórsson fræðimaður frá Sandhólaferju segir á einum stað frá því að skrímsli hafi átt það til að fylja merar og kelfa kýr. Á ótilgreindum bæ á Skeiðum í Árnessýslu segir Elías að kýr hafi borið skrímslisunga en sú frásögn er þó um margt mjög óglögg. Frásögn Elíasar af meri Jóns Jónssonar bónda í Akbraut í Holtum (1844 – 1915) sem fyljuð var af ófreskju úr Þjórsá er mun skýrari í þessum efnum og á þessa leið:
“Bærinn Akbraut stendur nálægt Þjórsá að austanverðu á móts við eyjuna Árnes, sem Árnessýsla er kennd við. Svo bar við, að hryssa, sem Jón bóndi í Akbraut átti, meiddist snemma sumars og var frá brúkun. Hún gekk þetta sumar með öðru stóði upp við ána. Veitti Jón því þá einhvern tíma eftirtekt, er hann leit eftir hryssunni, að klístringur nokkur var á lend hennar og kring um rassinn, og hár var tekið að rotna af henni á bletti þessum. Einnig veitt hann því eftirtekt, að hryssan fór að fara einförum og sinnti ekki öðrum hrossum eða þau henni. Leið svo fram á vetur, að þessu var ekki frekar gaumur gefinn. En þegar átti að fara að hýsa hryssuna, var hún svo digur, að hún komst ekki inn um hesthúsdyrnar. Jón átti lítinn kofa á túninu og tók það ráð, að víkka á honum dyrnar svo hryssan kæmist inn. Hryssan gildnaði stöðugt svo að dyrnar urðu enn of litlar, var hún því höfð algerlega inni. Svo var það einn morgun síðla vetrar, þegar Jón kom í kofann að gefa hryssunni heyið, að hann veður í miklum vatnselg á gólfinu. Skildist honum þá, að hryssan muni vera orðin léttari, en varð ekki var við neitt folaldið. En þegar hann fór að hreinsa út úr kofanum það sem hryssan hafði lagt af sér, varð hann var við eitthvert skvapkennt flykki, sem hann áleit að hefði verið með einhverri líftóru á meðan það var í kviði hennar. Þótti honum þetta svo óhugnanlegt, að hann var höndum seinni að grafa það niður. Jón var sannfærður um, að einhver ófreskja úr Þjórsá hefði slegið sér að hryssunni um sumarið.”
Elías getur þess ekki hvaða ár þetta gerist en segist hafa heyrt söguna þegar hann var ungur drengur. Elías var fæddur 1877 um svipað leyti og Jón Jónsson tók við búi af föður sínum í Akbraut. Atburður þessi hefur því átt sér stað nokkru fyrir aldamót. Elías segir að fyrrnefndur atburður á Skeiðum hafi gerst um líkt leyti. Þar voru tvær stúlkur að leiða kú og lá leið þeirra með Þjórsá en varið að skyggja af nótt. “Urðu þær þess þá varar, að kýrin stóð kyrr nokkra stund eins og henni væri haldið fastri. Þegar til nautsins kom, vildi það ekki líta við kúnni…” Síðan segir að kýrin hafi farið að gildna og bar síðan en það sem hún fæddi var mestmegnis vatn. “Þó var eitthvert flykki í vatninu, sem fólkinu virtist eiga eitthvað skylt við lifandi veru, en var með skráp í staðinn fyrir skinn”
(EH, Heiðinginn, 28… Rv. 1956).