Fossinn Búði dregur nafn sitt af búðum en þarna var þingstaður til forna
Austur við Þjórsá standa bæir tveir hvor hjá öðrum. Heitir annar þeirra Stórahof, en hinn Minnahof. Nöfn bæjanna benda til þess að þar hafi hof verið í fornöld, en eigi vita menn þó nær það var.
Í landsuður frá Minnahofi er foss einn í Þjórsá sem kallaður er Búði. Hann er eigi hár, en ákaflega breiður og mikið er í honum vatnsmegn, því þar fellur meiri hluti Þjórsár fram af þverhníptri klöpp sem liggur á snið niður á við yfir þá kvísl árinnar er að norðanverðu fellur við hólma þann er Árnes heitir og sýslan er við kennd. Er það alllíklegt að fyrst hafi kvísl þessi verið mjög lítil eða engi, en farið smám saman vaxandi. Nafnið Árnes bendir og til þess að hólminn hafi einhvern tíma nes verið og landfastur að vestanverðu.
Á vesturbakka árinnar móts við efra endann á Árnesi er melbakki hár og hefur hann áður verið grasi vaxinn að ofan. Nú er það ber grjótmelur og uppblásinn nema torfur nokkrar standa þar enn. Melbakki þessi er kallaður Búðaberg; þar hefur verið þingstaður mikill og sjást þar enn rústir [af] tuttugu og þrem búðum. Margar af þeim hafa verið stórar mjög. Búðirnar hafa staðið í aflöngum hring í kringum lág nokkra eða flöt grasi vaxna sem snýr í landnorður og útsuður og er við vesturenda Búðabergs svo önnur búðaröðin hefur staðið í hallanum á berginu og hin að vestanverðu við flötina. Þessi flöt er fögur mjög og góður glímuvöllur. Suður á berginu spottakorn frá búðunum rétt fyrir ofan fossinn sér til rústar kringlóttrar og er líklegt þar hafi dómhringurinn verið. Rúst þessi er sextán feta að þvermáli innanveggja; dyr snúa í vestur og eru sex feta víðar. Ekkert sést nú af veggjunum nema steinaröð tvísett og er hún ei mjög úr stað færð. Væri ei fjarri að ætla það hefðu verið undirstöður, en vel geta þó veggirnir verið sokknir ofan í sandinn.
Undir berginu niður við fossinn sjálfan þykjast elztu menn séð hafa stein mikinn, flatan ofan með bolla í miðju, og er það líklegast að þar hafi hlautbolli í verið. Nú sést ekki steinn þessi enda er hrunið mjög úr berginu svo vel getur hann verið hulinn í urð eða þá oltinn fram í hylinn undir fossinum. Það segja menn að fornmenn hafi blótað fossinn og fært honum sakamenn í fórn, en sönnur á því vita menn ei. Hitt er víst að hér hefur þingstaður verið og eigi lítill. Menn hafa tekið eftir því að stundum dynur mjög í fossinum, en stundum minna. Þegar mikið dynur í honum þykir það vita á útsynning og vætu eða úrkomu. Sagt er að dynur þessi heyrist stundum suður á Hellisskarð og er það þó ærið langur vegur. Þessi vísa er um hann gjörð:
Búði hefur bág hljóð,
bylur oft í þeim hyl;
þekkja margir þann foss,
það er gjá í Þjórsá.
Það lítur svo út sem undir fossinum séu þrjár gjár og þar steypist hann ofan í. Þetta er eigi svo ólíklegt því Þjórsá mun víðast á hrauni renna og því er það að botn hennar breytist mjög lítið. — Nafnið Búði mun vera dregið af búðunum eins og nafnið Búðaberg (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 128-129).