Kúðafljótsbæirnir og Kötlugosið 1918

Þegar Katla gaus árið 1918 var Gísli Tómasson (1897-1990) frá Melhól í Meðallandi ungur maður í Sandaseli í sömu sveit. Hér segir hann frá sinni upplifun af hamförunum.

Kötlugosið 1918 kom eins og þruma úr heiðskýru lofti yfir mann. En byrjunin var þannig, að ég var þá heima í Sandaseli og var að hlaða hesthúsvegg og stakk kekkina jafnharðan. Ég kom inn að ganga ellefu og sagði við fólkið að líklega væri Katla að koma. Það var nú ekkert gert nema hlæja að mér við þessa vitleysu, en það fór nú svo að klukkan var nú ekki þrjú þegar að hlaupið kom niður hjá bænum hjá okkur í Sandaseli. Það fyllti allt Kúðafljót og fór yfir alla hólma.

Fólkið kom frá Söndum stökkvandi. Þar var ekki nema einn karlmaður heima en allt hitt krakkar og kvenfólk og náttúrulega þungt að vaða vötnin í pilsunum. Við frændurnir fórum á móti og þrifum tvo krakka hvor sinn undir hvora hönd og það var ekkert sagt nema bara „flýtið ykkur eins og þið getið.“ Og við náðum bakkanum og þá skall hlaupið á brautina þar sem farið var yfir fljótið, bara rétt í því þegar síðustu mennirnir náðu upp.

Svo fór allt fólkið áfram og austur að Háu-Kotey, það hefur sennilega verið vegna nafnsins á bænum sem fólkið fór allt þangað. En þaðan var ekki fært nema fuglinum fljúgandi um nóttina fyrir vatnsflaum, frá gosinu,  sem kom á eftir drulluhlaupinu og  jakaburðinum sem að valt áfram fremur en rann. Og þetta gekk nú í nokkuð marga daga, sem að hlaupið stóð yfir og var ýmist bjart eða niðamyrkur af öskufalli. Þetta voru frekar leiðinlegir dagar. Það drap flest allt fé sem var þarna í hólmunum úti í fljótinu, frá Söndum og aðeins frá okkur líka. En kýrnar björguðust, þær voru bundnar á básum inni í fjósinu, og þar komst ekkert hlaup að, það stóð upp á nokkuð háum hól.

En hross fóru mörg í hlaupið, sum komust út úr því og komu svo heim til bæja, en önnur fóru út á sjó og ráku svo hér og þar og sum hvergi. En einn hestur, mjög góður vagnhestur og duglegur sem að bóndinn á Söndum átti, hann lenti í hlaupinu. Hann var keyptur á Bakka  í Landeyjum og hann rak á Bakkafjöru í Landeyjum, skrokkurinn af honum.

Þetta var náttúrulega mjög erfitt margt, það var svo oft sem það gerði myrkur,  svo að maður sá ekki á sér höndina ef maður rétti hana út þegar öskufallið var sem mest. Þetta var tilfinnanlegt tjón á margan hátt. Eyðilagði alla veiði í fljótinu, drap allan silung og selurinn flúði á haf út, ef hann hefur ekki drepist líka. Og þetta var í mörg ár að jafna sig. Þetta var óhemjutjón hjá bændum yfirleitt, sem urðu fyrir þessu.

Menn í Álftaveri voru að koma af afrétti og þeir urðu að flýja frá fénu. Sumir komust fram yfir Skálm og áfram heim en aðrir lentu austur í Skálmabæjarhraunum og lágu þar yfir nóttina og komust svo heim næsta dag. Því morguninn eftir, þá var allt fjarað. Hlaupið kom þarna klukkan þrjú en síðan kom vatnsflóðið klukkan eitt um nóttina. Því við yngra fólkið, við vöktum alla nóttina þarna úti í Háu- Kotey, því það komst ekki nærri allt fólkið í baðstofuna, svo við vorum öll, þetta yngra fólk, úti í hlöðu. Við vorum nokkrir sem vöktum bara og gáfum öllu gætur, því vatnsflóðið komst um nóttina hátt upp í hólinn og alveg heim að dyrum. Svo þar mátti ekki á milli sjá.

Svo var náttúrulega Mýrdalssandur ófær fyrst  á eftir, og í þó nokkurn tíma og lengi hættulegur þar sem jakar voru á kafi í sandi og fóru svo að þiðna og svo mynduðust stórar gjár. Það kom fyrir þegar við vorum að reka féð til Víkur til slátrunar, að þá datt þessi himna sem var yfir niður og féð datt ofan í. Og við urðum að tína það upp úr.

Frásögn Gísla Tómassonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1984 (SÁM 93/3432) sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1040533

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.