Mela-Manga var aðallega við Brúnarhornið, vestan við Botnagötuna, skammt frá Kringlumýri. Hún virðist ekkert hafa komist austur fyrir Botnagötuna. Sagt er að hún hafi horfið þar í sandbleytu og síðan verið þar á sveimi.
Sá síðasti sem varð eitthvað verulega fyrir henni, var Sigurður nokkur sem var lengi í Botnum og pabbi mundi nú eftir. Sigurður þessi var einn af þeim sem dó hérna í gamla fjósinu á Hnausum. Hann fór í þetta skipti í dimmu uppúr, frá Langholti, og þegar hann kemur uppfyrir Langholtsrofin, uppá sandana, fer hann að heyra tifið í prjónunum hjá Möngu því hún var alltaf að prjóna sama sokkbolinn, gekk aldrei neitt með hann. Hún var svona öðru hvoru að tuldra “Siggi, Siggi” en svo þegar hann er komin uppundir vötn þá er hún allt í einu orðin miklu nærgöngulli og alltaf að tuða “Siggi, Siggi, Siggi” og farin að færa sig nær honum svo hann heldur að hún ætli að hrekja sig austur í vötnin. Nú, Sigurður verður reiður og segir: “Þú veist þá hvað ég heiti, helvítið þitt.” En við þetta fyrtist Manga og yfirgaf hann og slapp hann við hana á eftir.
En mér hefur stundum dottið í hug að þarna hafi stikurnar verið búnar og þá var ekki lengur vörnin frá krossmörkunum, þau voru komin upp að þar sem grjótvörðurnar voru og þá hefur Manga átt betri aðgang að honum.
(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)