Á Kirkjubæjarklaustri bjó fyrrum bóndi einn sem ríkur var af sauðfé, og eitt haust þá hann réttaði kemur kerling á réttargarðinn og segir:
„Feigt er fé þitt bóndi.“
Bóndi hafði á móti og sagði að allt mundi það ekki fara. Hún kvað það allt feigt utan eina á morauða. Um vorið féll hver kvik klauf hjá bónda þessum utan Morukolla ein. Varð honum þá svo skapbrátt að hann kastaði henni út á Skaftá í hroðavexti og hraktist ærin fyrir straumnum og náði loks landi í Hæðargarðsnesið og fæddi hún þar um vorið tvær gimbrar morauðar. Út af þeim átti hóndi að hafa grætt upp eins margt fé og hann hafði áður átt.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 435-436).