Samningur biskups og skessunnar
Einu sinni þegar Brynjólfur biskup í Skálaholti var í vísitatíuferð tjaldaði hann undir fjalli einu. Hafði hann fjóra eða fimm menn með sér. Vaknar biskup við það að hönd ákaflega stór kom á tjaldið. Var þá sagt úti fyrir: „Bóndalegt tjald og bóndalegur maður!“ Biskup sá að þetta var skessa ein eigi smá. Hann segir henni að taka einn hest sinn sem hann til tekur og eiga hann. Fer þá skessan burt og tekur hestinn. Hún lagði hann á herðar sér sem sauð og gekk síðan uppí fjallið.
Biskup áði í sama stað sumarið eftir. En er menn hans vöknuðu var hann horfinn. Þeir fara og leita hans. Finna þeir hann loks í helli einum í fjallinu og var hann þar að tala við skessuna sem komið hafði að tjaldinu sumarið áður. Þeir sáu að hún grét og var sem hagl hrykki af augum henni. Ei vissu þeir hvað þau biskup höfðu talað saman. Fór hann síðan með þeim og heim.
Var það jafna siður hans síðan að láta binda stóðhross eitt á bæjarhlaði í Skálaholti aðfangadagskvöldið fyrir jól. Var hrossið jafna horfið á morgnana og þóttust menn vita að skessan hefði sótt það til jólanna
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 156-157).