Missögn af Höfðabrekku-Jóku

Höfðabrekku-Jóka er alkunnug gömul afturganga á íslandi sem margar sögur fara af.

Svo segja sumir að Jórunn hafi heitið kona sem bjó á Höfðahrekku í Mýrdal; hún var svarri mikill og skapill. Sonur hennar átti barn í lausaleik og líkaði henni stórilla; lézt hún aldrei mundu fyrirgefa honum þvílíka ódæðu, heldur kvaðst hún mundu hafa líf hans dauð eða lifandi.

Nokkru síðar andaðist Höfðabrekku-Jóka og gekk þegar aftur og sótti að syni sínum; honum var þá ráðið að fara út í Vestmannaeyjar og vera þar full tuttugu ár og fara aldrei til lands á þeim tíma. Þessu ráði hélt hann um nítján ár, en á tuttugasta ári brá hann af og fór til meginlands. Þegar hann steig á land á Eyjasandi var Jóka móðir hans þar komin; tók hún hann þegar og þreif hann á loft og færði niður við fjörunni svo hart að hann var jafnskjótt dauður. Síðan gekk hún í burtu. Þennan atburð sáu allir skipverjar og sögðu þeir að Jóka væri troðin upp að knjám af löngum erli.

Þegar Jóka hafði unnið verk þetta mætti hún Magnúsi presti á Heiði; hann var margvitur; hann mælti: „Skólítil ertu nú orðin Jóka!“ segir hann. „Nefndu það ekki Mangi!“ segir hún. Síðan lét hann hana fylgja sér að jarðkerinu á Grænafjallsafrétt og kom hann henni þar fyrir.

Sumir segja að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi kyrrsett Höfðabrekku-Jóku við hver einn og haldi hún þar í trefilsenda, en annar endi trefilsins sé fastur í hverinum.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 512).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.