Garðabrekka

Víða má sjá merki um byggð inn til fjalla. Bæði má það marka af örnefnum en einni má sjá móta fyrir hleðslum og stöku sinnum tóftum. Einnig má víða sjá tóftir sem gætu hafa verið sel. 

Upp með Þverá fyrir innan Fossnes er dalur sá er Sauðhúsdalur heitir. Þar hefir í fornöld verið dálítið býli, að sagt er, og hefir þá líklega heitið að Sauðhúsum og mun dalurinn hafa nafn af því. Innst í dalnum er brekka sú er Garðabrekka heitir. Þar eru forn garðlög, nokkuð undarleg, en brekkan er blásin og skriðin til beggja enda svo ógjörla sér þar til garðanna.¹ Það er sagt að í fornöld hafi austurleitarmenn úr Flóa sett fjallsafn sitt inn í þessar girðingar næstu nótt fyrir réttir, en ótrúlegt er að allir þessir garðar sé byggðir til þess. Það var ekki þörf á þeim svona mörgum og einkum væri þeir settir í óhentugan stað til þess í brattri brekku. Líklegra væri í fyrsta áliti að ímynda sér það hefðu verið akrar, en svo stór akrastæði eru þó hvurgi þar sem til þeirra sér nærlendis, t. a. m. Akrabrekka á Stóranúpi, Gerðin í Skaftholti. Þessir staðir ganga því samt nær að stærð, en miklu minni eru akrastæði tvö saman í Akurhól í Fossnesi (hér um bil 16—20 ferh. faðmar hvort). Um þessa staði er annars ekkert sérlegt að skrifa. Hefir þó naumast verið jafnmikið býli í dalnum og í Fossnesi, því síður eins og á Stóranúpi eða Skaftholti, hafi annars nokkurn tíma verið þar bær og ekki sel einungis.

Seltóftir eru víða eins og bæjatóftir að sjá og getur sú verið orsökin til þess að sagt er þar hafi bær verið, en nafnið Selgil leiðir til þeirrar ímyndunar að það hafi einungis verið sel. Þá má líka skilja hvurnig á sérstöku tóftunum hefir staðið, nefnilega efsta tóftin hefir verið sauðahús (þar af Sauðhúsdalur), miðtóftin heyborg, en stóra fremsta tóftin gaddur til að gefa í. Hefir það allt tilheyrt Fossnesbónda því hann hefir haft þar sauði sína á vetrum, en í seli á sumrum. En til hvurs voru þá garðarnir í brekkunni? Getandi er til að bóndi hafi viljað græða brekkuna út til slægna og tekið fyrir kafl og kafl af henni í einu og girt um, en aukið við öðru stykkinu, þegar annað var ræktað. Getur verið að fjallmenn hafi notað þær girðingar til að setja inn safnið, eins og getið var. Hefir bóndi þá líka viljað það til að fá áburðinn og því haft garðana svo rambyggða. — Á Hömrum heitir líka Akurhóll eða Ekruhóll, en brekkan framan í honum er sigin niður og sér í berg ofan til í henni, því sjást þar engin merki til girðinga (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 132).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.