Kjalrák eftir skip í Þjórsárdal skýrir örnefnið. Tröllafjölskylda sem dagaði uppi er rétt hjá Búrfelli.
Þess er getið í sögu Ólafs konungs Tryggvasonar, að Hjalti Skeggjason hafi byggt skip sitt heima í Þjórsárdal og flutt það til sjávar eftir Rangá hinni vestri. Hjalti bjó á Skeljastöðum í Þjórsárdal og byggði kirkju á bæ sínum, og er mælt, að sú kirkja væri þakin með blýi. Í Þjórsárdal áttu að hafa verið 19 bæir, sem eyddust í jarðeldinum, þegar Rauðikambur brann á 14. öld. Skipið hefur Hjalti orðið að setja fram yfir Þjórsá fyrir vestan Búrfell og svo austur með ánni eftir Kjallaka eða Kjalrákartungum, því þar var kjölrákin eftir.
Tungur þessar ná austur fyrir Búrfell og enda lítið eitt fyrir framan Tröllkonuhlaup. En Þjórsá rennur fram með Búrfelli að austan og inn með því að vestan. Austan í Búrfelli uppi í hömrunum standa þrír steindrangar. Á það að vera tröllkona sú, sem um er getið í þjóðsögum, og átti hana með karli sínum og krakka að hafa dagað þar uppi og orðið þar að steindröngum þessum. En þaðan í landsuður austur í Næfurholtsfjöllum blasir beint á móti Tröllkonugil, sem er miklu nær en Bjólfell. En skammt fyrir framan Tröllkonugil er stór steindrangi. Það á að vera tröllkonan með pottinn. En þegar hún elti Gizur á Botnum átti hestur hans að hafa dottið niður dauður við túngarðinn í Klofa, en skessan kastaði honum á öxl sér, þegar hún heyrði klukknahljóðið.
Kjallakatungur eða Kjalrákartungur eru þar sem enda búfjárhagar, en byrjar afréttur, og eru sandmelar með víðiviðarlaufi og blöðku, en innst grasflöt snögg rétt við Þjórsá. En þaðan í landnorður liggur Rangársandur milli Þjórsár og Rangár inn undir Salvararhraun, en rétt fyrir framan Salvararhraun eru upptök vestri Rangár. Einn bær var í Þjórsárdal, sem hét Sandatunga, fram við Þjórsá, skammt fyrir vestan Búrfell. Hún hafði verið í byggð fram á 16. öld.
Eftir handriti Halldórs Gíslasonar í Steinum undir Eyjafjöllum (1864) Auðunarsonar prests í Húsavík: Landsbókasafn 421, 8vo.
Jón Þorkelsson. 1956. Þjóðsögur og munnmæli. Bókfellsútg. Rv. s. 220 – 221