Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá Strönd í Meðallandi frá langafa sínum Magnúsi ríka Magnússyni (1801-1890) í Sandaseli sem þótti mjög nískur.
Magnús ríki í Sandaseli var talinn mjög nískur, og þegar að hann var að fylgja fólki yfir Kúðafljótið sem gat ekki borgað honum með neinu er sagt að hann hafi sagt: ,,Eru ekki leppar í skónum þínum.“ Og ef svo var, fékk hann frekar leppana en ekki neitt. Svo er sagt að hann hafi verið svo aðhaldssamur, að þegar að hann sá að fólk tíndi lagða úr haganum, eins og sérstaklega börn gerðu áður fyrr, vildi hann fá það, sem var tekið í hans landareign. Og svo var haft eftir honum, þegar einhver kom á meðan verið var að borða: ,,Látið aftur askana, einhver kemur. Blessi þig.“ Þá guðaði maðurinn á húsið og hann blessaði hann um leið og hann sagði fólkinu að láta aftur askana.
Einu sinni þegar hann var fluttur á Skaftárdal, þá komu menn í mjög vondu veðri og báðu um gistingu og hey fyrir hestana sína. En hann sagði að það væri ekki til á Skaftárdal og þeir yrðu að fara annað. Mennirnir fara, en hann segir við þá þegar þeir eru að fara: ,,Ef þið villist, þá komið þið aftur.“ Þeir fóru upp fyrir túngarð og sneru við, og þá tók hann mjög vel á móti þeim.
Magnús átti dóttir, sem hann ekki meðgekk. Hann sagði einu sinn við Sverrir bróðir sinn: ,,Hvað finnst þér um það Sverrir bróðir, heldur þú að ég ætti að fara að meðganga hana Sigríði mína núna fyrst ég er ekki búin að því fyrr?“ Sverrir var mjög vel gefinn maður og góður og hann sagði við hann að það væri aldrei skömm að því, og nú skyldi hann láta verða af því. Og það gerði Magnús.
Þegar að Kolfinna systir hans dó, þá var sendur til hans maður. Hann kom með 10 krónur til hans og bað hann um að selja sér brennivínsflösku til að hafa í erfisdrykkjunni. Gamli maðurinn tekur nú við krónunum og býður manninum að vera um nóttina og veitir honum góðan beina. En um morguninn þegar að hann ætlar að leggja af stað þá færir hann honum tíu krónurnar, hann skuli fara með þær aftur því að Kolfinna systir sín komist nú í jörðina þótt það sé ekki notað brennivín.
Frásögn Rannveigar Einarsdóttur frá Strönd í Meðallandi. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2595): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015154