Það fór ekki vel þegar skólaþjónustan fékk lánaðar nærbækurnar nýþvegnar
Það er kallað að heitast ef menn biðja hver öðrum mikilla óbæna og eiga heitingar oft að hafa orðið að áhrínsorðum. Svo er mælt að þá er skóli var í Skálaholti hafi þar verið tvær skólaþjónustur. Þær vóru báðar illar mjög og þungyrtar ef því var að skipta. Eigi er þess getið að þeim hafi komið illa saman. En svo bar til fyrir jólin einn vetur að önnur þjónustan þurfti að fara eitthvað út. Var þá illt veður mjög og bylur. Hún tekur þá nærbrækur einar nýþvegnar af einhverjum pilta sem hin þjónustan þjónaði; því hún hafði ei annað fyrir hendinni. Fór hún nú í brókina sem siður er stundum í sveit þá konur eru mikið úti í köföldum. Varð nú brókin vot og óhrein og þegar hún kom inn aftur segir hún hinni þjónustunni frá og biður hana að fyrirgefa sér það er hún tók brókina á laun við hana. En hún bregzt við reið mjög og atyrðir hana. Verður það út úr að þær heitast og sökkva báðar í jörðu niður. Var þá önnur komin í hné, en önnur upp að miðju, þegar að þeim var komið. Hlupu þá til skólapiltar og kipptu upp þeirri er skemmra var komin. Var hún þá burtu borin. Síðan tóku þeir til hinnar og var hún föst fyrir. Tóku þá tólf á henni í einu.
Þá segir hún: „Tíu toga að neðan, tólf toga að ofan og takið á fastara piltar.“ Gátu þeir loks náð henni upp og ætlaði það þó að ganga tregt.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 458-459).