Einu sinni komu vermenn til Eiríks. Þá var kalt veður og frost mikið. Þeir báðu prest að gefa sér í staupinu, en hann sagðist ekkert vín eiga. Þeir báðu hann því ákafar og sögðu að ekki mundi vínlaust í Vogsósum ef vel væri leitað. Eiríki leiddist nauðið í þeim og sagðist ekki muna hvort hann ætti svolítinn laggadreitil í kútnum sem hann hefði fengið um daginn. Fór hann þá og sótti kútinn og íékk þeim. Hann bað þá vita hvort nokkuð væri í kútholunni og kúga hana. Þeir tóku við og heyrðu að dálítið gutlaði á kútnum. Glöddust þeir við og supu á allir, en einatt gutlaði viðlíka mikið á kútnum, og það eftir að allir höfðu þó sopið á honum eftir vild sinni. Eiríkur spurði hvort þeir vildu ekki ljúka þessum seytli, en þeir sögðust ekki geta það svona allt í einu. Hann spurði þá hvort þeir vildu ekki hafa kútinn með sér. Það þágu þeir og þökkuðu presti mikillega fyrir. Þar næst héldu þeir á stað. Drukku þeir úr kútnum þegar þá lysti og þó var ekki að heyra að neitt minnkaði á honum. Þegar þetta hafði lengið gengið segir einn þeirra að þetta sé ekki einleikið og muni Eiríkur nú hafa haft brögð í tafli við þá. Hann þrífur þá kútinn og kastar honum niður á stein. Brotnaði þá kúturinn sundur og var hann hvítur innan af myglu. Var ekki að sjá að neinn deigur dropi hefði í hann komið langalengi
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 550-551).