Tvær sögur af Höskuldi sem bjó undir Eyjafjöllum og þótti ekki stíga í vitið.
Ólafur hét maður er bjó að Hlíð undir Eyjafjöllum fæddur hér um bil á tímabilinu milli 1620 til 1640, almenn[t] kallaður gamli Ólafur. Hann var sonur Höskuldar í Hlíð Hannessonar Krangefods á Lambafelli litara, ættaður frá Írlandi, en kom hingað frá Noregi. Ólafur var tvígiftur. Fyrirkona hans hét Ingvildur Jónsdóttir í Steinum Guðbrandssonar. Þeirra son var Höskuldur sterki. Seinni kona Ólafs gamla hét Sigríður. Þeirra sonur var Rafnketill Ólafsson sem áður er getið.¹ Höskuldur sterki átti konu þá er Guðrún hét Guðmundsdóttir Sigurðarsonar prests að Kálfafelli um 40 ár (deyði 1688) Bjarnasonar og hans fyrirkonu Ragnhildar Árnadóttir. Móðir Guðrúnar var Þóra Magnúsdóttir prófasts Péturssonar á Hörgslandi.
Höskuldur bjó fyrst á Núpakoti, seinna að Berjaneskoti, stærðarmaður og [sterkur] svo að engir vissu afl hans þókt engar kunnum vér sögur um það. En næsta lítilhæfur þókti hann til vits og framkvæmdar, en þó Iítur svo út sem hann hafi betur tekið eftir guðsorði en margur hver sem vitrari er, hvað ljóslega sýnir eftirfylgjandi almenn munnsaga: Höskuldur var maður sérlega kirkjurækinn og var hér sem oftar við Steinakirkju fyrsta sunnudag í föstu þegar guðspjallið er um freistnina; en er lesin voru þessi orð: „Allt þetta mun eg gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig,“ — kallar Höskuldur upp undir messunni, víst hrifinn af guðsorði og búinn að gleyma sjálfum sér: „Hefði ég verið herrann Kristur þá skyldi ég hafa gefið honum á andskotans kjaftinn.“
Önnur frásaga er það sem augljóslega sýnir að hann hefir hinn mesti hugmaður verið: Einu sinni um vökuna í hjarni, tunglsljósi og fegurð gengur hann austur fyrir bæinn og upp í heygarðinn að baki húsum. Sér hann þá hvar maður mikill vexti með heykrók í hendinni stendur við stálið. Honum verður skapbrátt og ætlar þetta muni þjófur, æðir ofan í garð og rekur þjófinn í gegn við stálið með heykróknum; stekkur síðan upp og vestur á garðinn; hinn með sama móti litlu norðar. Ekki mýkist Höskuldur við það, eltir hann upp af bökkum þangað til hann kemur í Buskuflóð, leysir þar, sem náttúrlegt var, brækur sínar. Sagði Höskuldur svo frá: „Þegar ég skeit þá skeit hann; þegar ég gylti mig þá gylti hann sig.“ Höskuldur var blestur á máli og því sagði hann „gylti“ (ɔ: gyrti). Þjófurinn flýði undan honum allt upp að Hvolhrauni og inn í ofurlítinn skúta sem þar er framan í berginu. Missti Höskuldur hann þar við bergið (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, 194-195).