Kaup kölska við vefjarkonuna

Kölski narrar vinnukonu Sæmundar fróða til fylgis við sig með kökum og smjöri

Einu sinni var vinnukona í Odda hjá Sæmundi fróða og óf hún oftast allt sem þar var ofið. Einu sinni sem hún var að vefa kemur maður til hennar og fer að tala við hana og spyrja hana um hvert það sé ekki heldur slæm vist í Odda. Hún segir hún sé ekki svo slæm nema einstöku sinnum sé heldur þröngt um mat vegna þess að svo mikið gangi í gesti og gangandi. „Ertu þá ekki einstöku sinnum svöng?“ segir maðurinn. „Ekki er það með jafni,“ segir vinnukonan. „Heldurðu þú gætir þá ekki þegið að það yrði komin kaka með smjöri ofan á á hverju kvöldi að rúminu þínu?“ Hún sagðist mundi þiggja það. Hann segist þá skuli sjá um að kaka og smér skyldi vera hjá rúminu hennar á hverju kvöldi, en hún verði að lofa sér aftur á móti að biðja aldrei fyrir honum Sæmundi því ef hún gjöri það þá fái hún ekki kökuna og smjörið. Það segist hún muni geta látið vera.

Lengi um veturinn bað hún aldrei fyrir Sæmundi; og þó að hann hnerraði og hitt fólkið bæði fyrir honum þá bað hún aldrei fyrir honum og því var alltaf kaka og smjör við rúmið hennar á hverju kvöldi. Einu sinni var hún að vefa og þá kemur Sæmundur til hennar og fer að tala við hana. Og eftir að hann er nokkra stund búinn að tala við hana fær hann fjarskalega mikinn hnerra, en hún þegir og læzt ekki heyra. Eftir nokkurn tíma fer hann að hnerra enn meir. Þá segir stúlkan: „Ærstu ekki síra Sæmundur, guð hjálpi þér.“ Þá segir síra Sæmundur og hættir alveg að hnerra: „Ekki held ég þú fáir köku og smjör í kvöld.“ Og hún fékk ekki heldur köku og smjör eftir þetta hjá kölska.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 482).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.