Ögmundur biskup og fuglanetið

Guð bjargar mönnum um fugl til matar

Móðir Ögmundar [Pálssonar] hét Margrét og var Ögmundardóttir. Bróðir hennar hét Þórólfur og var kallaður biskup. Hann bjó vestur í Laugardal á Vestfjörðum. Þar verður fyrst til að taka að hann [Ögmundur] hélt Breiðabólstað mörg ár. Það bar við einu sinni á páskadag að þar var lagt fuglanet og stóð þá í stilli. Þá hafði verið mikil harðindi til matar á millum manna. Prestinum var sagt til að fuglinn væri kominn í látrið en hann bannaði að slá og sagði nú vera ,,lífgunar dag en ekki dauða.”

Nú svo skeði að ein kýrin sleit sig upp í fjósinu og gekk þangað sem fuglinn var og netið lá. Hún kom fætinum við stöngina, en hún upp strax og yfir fuglinn, það var þrjú hundruð fugls. Sá allur fugl var tekinn undir netinu og látinn í stofu og geymdur fram yfir miðjan dag á mánudaginn og þá var hann sleginn.

Var svo sagt eftir síra Ögmundi í það sinn að slíkt væri jarteikn, veitt af guði, því að guð hefði nú bjargað mönnum til fæðu þeirrar líkamlegu, svo sem hann hefði hjálpað sálunum nú á þeim (degi) og leyst þær frá kvölum.

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 3. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls 316)

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.