Völvuleiðið á Felli mátti ekki slá, því þá fylgdu gjarnan slysfarir í kjölfarið eins og títt var um völvuleiði. Hér segir Jón Sverrisson (1871-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi í Álftaveri frá tveimur ábúendum á Felli sem slógu leiðið og hefndist fyrir.
Þegar séra Oddgeir Guðmundsson prestur bjó á Felli, þá lét hann einu sinni slá torfuna þar sem völvuleiðið var, en hún var rétt fyrir austan bæinn. Þá gekk lækur sem Klifandi heitir svo hart fram að hann tók heilmikið af heimatúninu á Felli og lagði í eyði.
Þegar Gísli heitinn Kjartansson frá Elliðavatni bjó á Felli, þá hafði hann tvo unglingspilta fyrir vinnumenn. Þeir voru báðir skaftfellskir. Hann sendi þá, á aðfangadag, að gá að lömbum. Þeir komu ekki heim um kvöldið og svo þegar að þeim var leitað daginn eftir, fundust þeir báðir dauðir, höfðu hrapað í gilið. Og það var álitið að það hefði verið vegna þess að hann lét slá þessa torfu, presturinn, óaðvitandi.
Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1967 (SÁM 89/1742) sjá https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1003118
Aðra frásögn af sama völvuleiði er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar
Sólheimaþing er yzta prestakallið i Vestri-Skaftafellssýslu. Prestssetrið þar heitir á Felli. Í hlíðunum fyrir austan bæinn stendur leiði eitt sem kallað er Völvuleiði. Það snýr í norður og suður. Er svo mælt að valvan hafi búið á Felli og mælt svo fyrir áður hún dó að sig skyldi þar grafa sem fyrst skini sól á morgna og síðast á kvöldi og var hún því grafin í hlíð þessari. Hún sagði og að eigi skyldi slá leiði sitt á sumrum og mundi sá illt af hljóta sem það gjörði. En það sagði hún að vel mundi þeim vegna er eigi slægi leiði sitt og ákvað að bóndinn á Felli skyldi æ greiða 60 fiska til fátækra á ári hverju auk þess er honum bæri með réttu. Þessi siður helzt við enn í dag.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 2, bls. 36).