Sigurður á Fljótum

Einhver orðrómur var um reimleika á bænum Fljótum í Meðallandi, sem taldir voru tengjast smiðju sem þar var. Hér segir Jón Sverrisson (1871-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi í Álftaveri frá þeim.

Það var gamall maður á Fljótum í Meðallandi, sem dáinn er núna (1967) fyrir ca 20 árum. Hann var járnsmiður mikill, og hann hafði fólk og eldaði víst allan matinn fyrir fólkið í smiðjunni. Eftir að hann dó þóttust menn verða varir við hann í smiðjunni, og heyrði ég þessa vísu um það, ég held að hana hafi búið til Kjartan heitinn Leifur Markússon, en hún er svona:

Austursveitum fregn sú frá

Fer með hætti ljótum.

Að afturgenginn sumir sjá

Sigurð gamla á Fljótum.

En þá var búið að flytja bæinn þaðan, hann var á svolitlum grashólma þarna innan um sandleirur og vatn, og karlinn var alltaf í smiðjunni. Og ég get trúað því að ef að nokkur sveimur hefði verið eftir Sigurð gamla, þá hefði það verið í smiðjukofanum eða rústinni, því þar var hann alltaf, og alveg listasmiður.

Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í október 1967 (89/1721) sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1005800

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.