Álagatjörnin í Álftaveri

Menn þurftu ekki aðeins að varast það að slá álagabletti á árum áður heldur líka álagatjarnir. Hér segir Jón Sverrisson (1871-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi í Skálmabæjarhraunum og Holti í Álftaveri frá því þegar hann sló álagatjörn í landi Skálmabæjarhrauna.

Annað árið sem ég bjó í Skálmabæjarhraunum var mjög hart. Þarna voru engin tún, bara eldhraun, í kringum bæinn og lítið búið að laga þar til. Bara svolítill skækill sem sleginn varð heima. Svo ég fór að skoða um. Skálmabæjarhraun áttu fyrir sunnan Skálm hálft túnið í Skálmabæ, það tilheyrði þessari Hraunajörð, hún var miklu stærri þá en Skálmabærinn. En það er nú ekkert með það, ég labbaði þarna út í hæðina, ég vissi þar af tjörn og hún var þakinn í votsefi og mér leyst vel á að þarna fengi ég töluvert hey upp úr. Ég dreif mig ofan í tjörnina um morguninn og skar alla tjörnina. En ég var ekki alveg búinn þegar hann Jón afi hans séra Óskars, kom út að tjörninni og segir: ,,Þú ert þá að skera tjörnina, það liggur orðrómur á því að það mætti ekki hirða hey úr þessari tjörn eða skera hana.“ Ég sagði þá: ,,Ja, ég er kominn svo langt með þetta, ég klára það bara, það bitnar á mér hvort sem er.“ Svo hvessti að vestan seinna um daginn og það rak allt sefið austur að landinu að austan, það var einmitt þangað sem ég vildi fá það. Svo ég dreif það í jötunmóð upp á þurrt, og varð nú heitur og þreyttur við það verk. Svo þurfi ég að ríða heim dálítinn veg, eftir að ég var búinn að þessu. Og þá ætlaði ég hreint að drepast úr kulda. Og eftir það varð ég magaveikur í yfir 60 ár. En hvort það hefur verið út af því að ég fór í tjörnina, veit ég ekkert um því hann vissi ekkert hvaða viðurlög væru á tjörninni, eða af hverju þau voru spunninn.

Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1967 (SÁM 89/1742) sjá: https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1006002

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.