Jón leitar galdrabókar í kirkjugarði eftir ráði Sæmundar fróða
Sæmundur hafði heyrt af sínum góðum félagsmanni er Jón hét að sín ráð hafa vildi til að ná einni bók er þeir báðir vissu fyrrum niðurgrafna vera í Skálholtskirkjugarði með eigandanum. Hafði Jón sina lagskonu þetta vita látið. Sæmundur lagði honum ráðin og bað Jón eigi af bregða. Kemur svo Jón til Skálholts, gengur í kirkju, læsir dyrum og meinar engan mann nálægan, kveður þrjár vísur. Við það sama opnast grafir í garðinum; kveður Jón enn vísu; gengu þá allir úr gröfunum og inn í kirkju. Fyrir þeim öllum gekk maður gamall og gráhærður og settist á forstólinn, hafandi bók í hendi sér. Jón kvað enn vísu í þriðja sinn; þá opnaðist bókin.
En í því sama bar so við að frilla Jóns gaf af sér hljóð mikið; hafði hún sem áður er sagt vitað af þessu hans áformi og fyrirtekt og af forvitni sinni gefið sig upp í kirkjuna, Jóni óvitandi, til að vita hvernig þetta mundi til ganga og leynt sér í kórnum. Varð hún nú fyrir drauganna áhlaupum so hún lærbrotnaði og hljóðaði þar af mjög sem sagt er. Við þetta hljóð varð mikið hark í kirkjunni; hljóp þá Jón i klukkustrenginn og hringdi; þar með hurfu burt allir þeir sem enn voru komnir með miklum gný og fóru aftur í grafir sínar, en Jón missti bókarinnar
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 473-474).