Hjálmarssteinn í Nikhólstúni

Strönd í Meðallandi

Álfar tóku drenginn Hjálmar og höfðu hann hjá sér þar til húsbóndinn hótaði þeim eilífum ófriði. 

Steinn mikill er í Nikhólstúni, sem kallaður er Hjálmarssteinn.  Fyrr hafði hann heitið Rauðnefur og var ýmist nefndur því nafni eða hinu um 1880.
Um og eftir 1830 bjó á parti í Pétursey Eiríkur Jónsson, og fæddist þar sonur hans Hjálmar, sem síðar bjó í Rotunum við Eyjafjöll. Siiður var þá, að karlmenn gengu að túnaslætti nokkuð fyrr en um venjulegan fótaferðartíma og tóku sér svo dúr um hádegi. Eiríkur hafði þennan dag, sem hér um ræðir, slegið mikinn teig í valllendinu vestur í Nikhólsleiti, fyrir miðjan morgun. Þurrt var og hiti um dagmálin. Eftir hádegi fóru tvær stúlkur í ljána, en Eiríkur var þá heima, því lokið hafði hann við að slá skák sína. Stúlkurnar tóku drenginn Hjálmar, sem þá var á fyrsta ári, með sér og hreiðruðu um hann í nýslegnu heyi hjá stórum kletti, sem kallaður var Rauðnefur. Þær rökuðu svo ljána og voru öruggar um barnið, ekkert heyrðist í því. Ekki gættu þær heldur að því, fyrr en ljáin var búin. En þeim brá heldur í brún, þegar þær ætluðu að taka drenginn, hann var hvergi að finna. Bæli hans var óhreyft og hann eflaust skriðið úr því. Þó var þar ekki um mörg afdrep að gera, sem hann gæti dulist í. Leituðu þær og leituðu en fundu drenginn ekki. Fóru nú heim og tjáðu Eiríki hvernig komið var. Honum fannst þær slælega hafa gætt að drengnum, en fór strax sjálfur og fékk með sér fleiri menn að leita hans.

Stúlkurnar fullyrtu að ekki hefði þar örn flogið og ekki því til að dreifa að hann hefði hremmt barnið. Þeir Eiríkur leita í brekkunum og út í frá, af sér allan grun, og finna ekki drenginn. Leið svo dagur sá, og gat Eiríkur ekki lagst til svefns um kvöldið. Eflaust hélt hann að huldufólkið, sem bjó í Rauðnef, hefði numið drenginn til sín.

Hugsar hann sér að gera tilraun þá, er hann hafði heyrt um að áður væri gjörð í líku tilfelli, nefnilega að heimta drenginn með hörkubrögðum af álfunum. Hann bindur saman tvo væna heysófla og gengur með þann mikla vönd út að Rauðnef. Heimtar hann drenginn til baka og lemur steininn utan lengi, lengi. Loks hvílir hann sig og hótar þeim verum, sem í steininum búi, að þannig lemji hann á steini þeirra dag hvern ef ekki skili þær barninu jafngóðu. Gekk hann að þessu lengst nætur og fór svo heim og gat sofnað lítinn dúr. Undir eins og hann reis á fætur, hleypur hann út að Rauðnef, og liggur Hjálmar litli þá þar í heybosinu, sem stúlkurnar höfðu búið honum. Drengurinn var glaðvakandi og ómeiddur með öllu, en það var engum vafa bundið, að inní steininn hafði hann horfið og verið skilað þaðan aftur.

Eirík dreymdi litlu síðar að hann skyldi flytja frá Pétursey ef hann vildi ekki verða fyrir reiði huldufólksins þar. Hann flutti að Ketilsstöðum og var dugnaðarbóndi þar lengi.

Sögn Péturseyjarfólks 1890

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal. Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson frá Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981:bls.111-112)

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.