Féð fékkst ekki inn í fjárhúsin. Sennilega var þar maður sem fyrirfór sér og hafði ekki farið áfram fyrr en hans tími var kominn.
Þegar koma átti fé inn í gömlu húsin hérna heima á Hnausum þá varð maður alltaf að fara á undan rollunum inn ef farið var að rökkva. Þetta var alveg sama með gemsana. Féð fór ekkert inn ef nokkuð var farið að bregða birtu nema maður færi sjálfur á undan því, en allt var í lagi ef albjart var. Svo hvarf þetta 1960, eftir það fór féð allt eðlilega inn. Það voru bara dáldið mikil viðbrigði. Faðir minn byggði húsin sem eru suður við veginn. Það var allt í lagi með þau, féð fór þar inn hvernig sem var, hvort var bjart eða dimmt. Eiginlega kann ég enga skýringu á þessu, nema að það var talið, eða hún sagði mér hún Anna í Króki, að þetta mundi hafa verið út frá manni sem fyrirfór sér og það eru kannski líkur til að hann muni þá hafa verið búinn að lifa þennan tíma sem hann átti að lifa á jörðinni. Það var talið að það þýddi ekkert fyrir menn að reyna að flýta fyrir sér, menn færu ekki fyrr en þeim væri ætlað að fara.
(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum. Skrásetjari: Guðmundur Óli Sigurgeirsson feb. 2000 Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)