Brynjólfur biskup og kerlingin

Kerling ein var í Skálholti á dögum Brynjólfs biskups, og gegndi hún eldastörfum með annarri konu. Kerling þessi var myrkfælin mjög. Það var einhverju sinni síðla um kvöld, að kerling rogar hlandkeraldi frá eldhúsi, og ætlar hún að bera það fram bæinn og út karldyr, en göng voru löng og skíma, svo að sjá mátti deili til dyranna. Hún sér, að skugga ber fyrir dyrnar, og verður ekki um sel, og fer að raula fyrir munni sér:

Óhræddur geng ég illu á mót, öndum og myrkraher, hjálpræðis meðan hjálm og spjót í höndum mínum ég ber. Sér hún þá, að þetta færist nær henni innar eftir göngunum. Þá hækkar hún róminn: Helvízkur myrkrahöfðinginn, haf þig í burtu nú.

En er hún hafði þetta út sungið, er ofboð á hana komið af hræðslunni, því að þá þóttist hún sjá, að vofan var nær því að henni komin, og sendir hún þá keraldið af hendi og syngur skjálfandi: Á, varstu feginn að flú!

Hafði það verið biskup sjálfur, er um bæinn gekk og varð fyrir keraldi kerlingar. Kom það í fang honum.

Eftir sögn séra Friðriks Eggerz 1852

Jón Þorkelsson. 1956. Þjóðsögur og munnmæli. Bókfellsútg. Rv. s. 20 – 21

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.